Skipulagsnefnd

229. fundur 27. apríl 2016 kl. 08:00 - 11:25 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Tryggvi Gunnarsson
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurjón Jóhannesson
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bjarki Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Anna Bragadóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnisstjóri
Dagskrá
Tryggvi Gunnarsson S-lista mætti í forföllum Ólínu Freysteinsdóttur.

1.Ferðamálastefna

Málsnúmer 2014110220Vakta málsnúmer

Vorið 2015 fór af stað vinna við ferðamálastefnu Akureyrar. Lögð voru fram drög að ferðamálastefnu og óskað er eftir ábendingum og athugasemdum frá skipulagsnefnd.

Á fundinn kom María Helena Tryggvadóttir verkefnisstjóri og kynnti drögin.
Skipulagsnefnd þakkar Maríu Helenu fyrir kynninguna.

Skipulagsnefnd felur skipulagsstjóra að taka saman athugasemdir og spurningar sem fram komu hjá fundarmönnum við drögin og koma á framfæri við Akureyrarstofu.

2.Miðbær suðurhluti - umsókn um breytingu á deiliskipulagi Drottningarbrautarreits

Málsnúmer 2015020122Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var auglýst frá 27. janúar með athugasemdafresti til 9. mars 2016. Auglýsingar birtust í Lögbirtingablaði og Dagskránni. Skipulagsgögn voru aðgengileg í þjónustuanddyri Ráðhúss Akureyrar og á heimasíðu skipulagsdeildar.

Íbúafundur var haldinn þann 28. janúar 2016 þar sem tillaga að skipulaginu var kynnt almenningi.

Fjórar athugasemdir bárust

1) Miðbæjarsamtökin á Akureyri, dagsett 29. janúar 2016.

Alfarið er lagst gegn því að bílastæðum í miðbænum fækki frá því sem nú er. Ekki hugnast þeim að stækka bílastæðin neðan við Leikhúsið til að koma til móts við bílastæðaþörf. Ef þessi tillaga verður samþykkt þá er komið fordæmi fyrir að sleppa, eða minnka verulega fjölda bílastæða á reitnum austan Skipagötu. Það geta rekstraraðilar í miðbæ Akureyrar aldrei sætt sig við.

2) Undirskriftarlisti, dagsettur 3. mars 2016 þar sem forsvarsmenn fyrirtækja á svæðinu skrifa undir.

a) Deiliskipulagsbreytingin er ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag þar sem lögð er áhersla á bílastæðakjallara á svæðinu.

b) 73 bílastæði þyrftu að vera í bílastæðakjallara til að uppfylla gildandi ákvæði eftir hækkun nýtingarhlutfalls úr 1,80 í 2,02.

c) Engin bílastæðakrafa er gerð til fyrirhugaðs hótels þar sem engin bílastæði verða innan lóðarinnar.

d) Að mæta bílastæðaþörf hótelsins ofanjarðar, utan lóðar og á kostnað nærsamfélagsins getur ekki talist samræmast aðalskipulagi.

3) Gunnar Magnússon, dagsett 4. febrúar 2016.

a) Mótmælt er hækkun suðausturhluta byggingarinnar í 3,5 hæð.

b) Allt of fá bílastæði eru í skipulaginu.

c) Austurbrú ætti að vera einstefna í suður. Götur norðan og vestan Hafnarstrætis 80 ættu einnig að vera einstefna. Þá væri hægt að bæta við bílastæðum.

d) Fjölga þarf bílastæðum sunnan Hafnarstrætis 80.

4) Arnar Birgir Ólafsson, dagsett 9. mars 2016.

a) Með hvaða hætti samræmist tillagan aðalskipulagi Akureyrar?

b) Líklega verður gerð krafa um nýtt bílastæðaplan á nærliggjandi lóðum. Hefur skipulagsnefnd tekið afstöðu til þess og ef svo er hvaða svæði verði þá fyrir valinu?

c) Á hvaða hátt rökstyðja bæjaryfirvöld að tillagan þjóni betur framtíðarsýn Akureyrar skv. aðalskipulagi heldur en gildandi deiliskipulag?

d) Kallar þessi tillaga á breytingu á texta aðalskipulags varðandi bílastæðakjallara á reitnum.

Þann 20. apríl 2016 barst bréf frá Sverri Gestssyni f.h. Norðurbrúar ehf. þar sem lögð er til málamiðlunartillaga um að í stað bílakjallara verði byggingarreitur hússins minnkaður þannig að hægt verði að koma fyrir 20 bílastæðum innan lóðar en greitt yrði í bílastæðasjóð af 30 bílastæðum til viðbótar.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu málsins milli funda í ljósi ný innkomins bréfs.

3.Austurbrú 2-4 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2016040126Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. apríl 2016 þar sem Logi Már Einarsson f.h. Furuvalla 7 ehf., kt. 530212-0170, sækir um byggingarleyfi fyrir nýbyggingu við Austurbrú 2-4. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Loga Má Einarsson.

Helgi Snæbjarnarson L-lista bar upp vanhæfi sitt í málinu og var það samþykkt. Vék hann af fundi við umfjöllun og afgreiðslu málsins.
Skipulagsnefnd frestar erindinu og óskar eftir skýrari gögnum vegna útlits sbr. umræður á fundinum.

Tryggvi Gunnarsson S-lista sat hjá við afgreiðsluna.

4.Norður-brekka - breyting á deiliskipulagi Helgamagrastrætis 22

Málsnúmer 2015080103Vakta málsnúmer

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi var grenndarkynnt frá 4. nóvember með athugasemdafresti til 2. desember 2015.

Ein athugasemd barst:

1) Bára Björnsdóttir og Hermann Jón Tómasson, dagsett 30. nóvember 2015.

Gerðar eru athugasemdir vegna nálægðar fyrirhugaðrar byggingar við þeirra heimili vegna áhrifa á útsýni og snjósöfnun. Um er að ræða breytingu í gömlu hverfi þar sem ekki var gert ráð fyrir byggingu bílageymsla á suðurhluta lóða í götunni. Um er að ræða verulega breytingu á heildaryfirbragði götunnar og er lagst alfarið gegn slíkri breytingu.

Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu málsins á fundi 27. janúar og aftur 13. apríl 2016.

Umsækjandi lagði fram teikningar sem sýnir mögulega staðsetningu bílskúrsins þar sem komið er til móts við athugasemdir nágranna.

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 22. apríl 2016 frá Báru Björnsdóttur og Hermanni Jóni Tómassyni þar sem þau leggjast enn gegn umræddum framkvæmdum.
Skipulagsnefnd tekur undir innkomna athugasemd og hafnar því umbeðinni breytingu á deiliskipulagi.

5.Hafnarstræti 71 - deiliskipulagsbreyting

Málsnúmer 2016020081Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. janúar 2016 þar sem Fanney Hauksdóttir f.h. Morgunhana ehf., kt. 441105-0880, sendir inn fyrirspurn vegna breytinga utanhúss á húsi nr. 71 við Hafnarstræti. Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 10. febrúar 2016 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi.

Framlögð tillaga að breytingu á deiliskipulagi er dagsett 19. apríl 2016 og unnin af Arnþóri Tryggvasyni hjá AVH.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Rimasíða - opna götuna yfir í Austursíðu

Málsnúmer 2016020148Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 18. febrúar 2016 vísaði bæjarráð til skipulagsdeildar 6. lið úr fundargerð viðtalstíma bæjarfulltrúa dagsett 11. febrúar 2016.

Liður 6 úr fundargerð, Rimasíða - opna götuna yfir í Austursíðu:

Sigríður Lovísa Björnsdóttir mætti í viðtalstíma bæjarfulltrúa til að ræða hvort það sé möguleiki að opna Rimasíðuna yfir í Austursíðu.

Íbúar í Reykjasíðu hafa farið í þrígang og borið út miða í raðhúsin í Rimasíðunni og bent á að Reykjasíðan sé 30 km gata. Sigríður vill meina að það séu íbúar Rimasíðunnar sem keyri hratt og glannalega í gegnum götuna til að komast í Rimasíðuna. Gangstéttir jafnvel ekki ruddar vegna snjómagns og krakkarnir ganga þá á götunni og bílarnir keyra jafnvel á 70 km hraða. Vill að opnað verði frá Rimasíðu yfir í Austursíðu. Gerir sér grein fyrir að þarna er spennistöð fyrir þannig að erfitt er að opna þetta beint. En vill að það sé skoðað hvort ekki sé hægt að fara aðeins framhjá spennistöðinni. Plássið er ekki mikið en spurning hvort hægt sé að gera smá leið sem væri aðeins fyrir íbúana en ekki endilega opinber vegur. Engar hraðahindranir eða þrengingar eru í götunni.

Skipulagsdeild óskaði eftir umsögn framkvæmdadeildar og hraðamælingu í götunni og umsögn Norðurorku sem barst 17. mars 2016.

Gróflega áætlaður kostnaður við gatnagerð er 3 milljónir og vegna færslu spennistöðvar 25 milljónir.
Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem kostnaður við opnun götunnar út í Austursíðu er mikill og mældur umferðarhraði í Reykjasíðu er ekki það mikill að hann réttlæti þann kostnað.

7.Hlíðargata 2 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2016040066Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. apríl 2016 þar sem Hilmar Gunnarsson sækir um lóð nr. 2 við Hlíðargötu. Meðfylgjandi er staðfesting viðskiptabanka.
Tvær jafngildar umsóknir bárust um lóðina.

Í samræmi við vinnureglur um lóðarveitingar fór fram útdráttur um lóðina á fundinum. Umsækjendum um lóðina var gefinn kostur á að vera viðstaddir útdrátt og Hilmar Gunnarsson mætti á fundinn.

Skipulagsnefnd getur ekki orðið við erindinu þar sem hún kom í hlut annars í útdrættinum.

8.Hlíðargata 2 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2016040106Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 12. apríl 2016 þar sem Finnur Víkingsson sækir um lóð nr. 2 við Hlíðargötu. Meðfylgjandi er staðfesting viðskiptabanka.
Tvær jafngildar umsóknir bárust um lóðina.

Í samræmi við vinnureglur um lóðarveitingar fór fram útdráttur um lóðina á fundinum. Umsækjendum um lóðina var gefinn kostur á að vera viðstaddir útdrátt og Hilmar Gunnarsson mætti á fundinn.

Skipulagsnefnd samþykkir að veita umsækjanda lóðina í samræmi við niðurstöðu útdráttar. Skipulags- og byggingarskilmálar gilda.

9.Hlíðargata 2 - umsókn um lóð

Málsnúmer 2016040068Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 11. apríl 2016 þar sem Kirkjutorg ehf., kt. 480513-0960, sækir um lóð nr. 2 við Hlíðargötu. Meðfylgjandi er staðfesting viðskiptabanka.
Skipulagsnefnd hafnar umsókninni þar sem einstaklingar ganga fyrir við úthlutun einbýlishúsalóða skv. vinnureglum um lóðarúthlutanir en um lóðina bárust tvær umsóknir frá einstaklingum.

10.Aðalstræti 4, Gamla Apótekið, breytt skráning

Málsnúmer 2015120028Vakta málsnúmer

Argos ehf., Arkitektastofa Stefáns og Grétars, sótti með bréfi f.h. Minjaverndar dagsettu 24. nóvember 2015 um breytta skráningu hússins úr íbúðarhúsnæði í atvinnhúsnæði, þ.e. íbúðahótel. Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 27. janúar 2016 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi.

Framlögð tillaga að breytingu á deiliskipulagi er dagsett 27. apríl 2016 og unnin af Loga Má Einarssyni hjá Kollgátu.
Þar sem um óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi er að ræða leggur skipulagsnefnd til við bæjarstjórn að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

11.Oddeyrartangi 149131 - uppsetning á búnaði til eyðingar á áhættuvefjum frá sláturdýrum

Málsnúmer 2016010145Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 18. janúar 2016 þar sem Bára Heimisdóttir f.h. Norðlenska ehf. óskar eftir heimild til uppsetningar á búnaði til eyðingar áhættuvefja úr sláturdýrum við sláturhús Norðlenska á Akureyri.

Skipulagsnefnd synjaði erindinu á fundi sínum 27. janúar 2016.

Nýtt erindi barst 5. apríl 2016 þar sem Ágúst Torfi Hauksson f.h. Norðlenska óskar eftir að skipulagsnefnd endurskoði afstöðu sína. Óskað er eftir að Norðlenska fái leyfi til starfrækslu brennsluofns út árið 2019 og að einungis verði brenndur úrgangur í flokki 1 og 2 sem eru um 100 tonn á ári.
Meirihluti skipulagsnefndar frestar afgreiðslu og felur formanni nefndarinnar og skipulagsstjóra að vinna að lausn í samræmi við Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2015 - 2026.

Tryggvi Gunnarsson S-lista greiðir atkvæði gegn afgreiðslunni og óskar bókað að hann vilji að erindinu verði hafnað í samræmi við afgreiðslu skipulagsnefndar 27. janúar 2016 á sambærilegu erindi.

12.Hafnarstræti, göngugata - verklagsreglur um lokun

Málsnúmer 2015070016Vakta málsnúmer

Vinnuhópur um verklagsreglur um lokanir gatna lagði fram tillögu að samþykkt um lokanir gatna í Akureyrarkaupstað og óskaði eftir umsögnum frá Akureyrarstofu og framkvæmdadeild á fundi 23. mars 2016.

Umsagnir bárust frá:

1) Framkvæmdaráði dagsett 22. apríl 2016.

Framkvæmdaráð telur að komi til lokana um sumartímann þá sé farsælla að þær væru með sama hætti alla sumarmánuðina og þá telur ráðið nauðsynlegt að yfirfara verðskrá umhverfismiðstöðvar í framhaldinu. Framkvæmdaráð telur ekki rétt að Listagilið sé lokað nema í undantekningartilfellum.

2) Stjórn Akureyrarstofu dagsett 14. apríl 2016.

Athugasemdir stjórnar Akureyrarstofu snúast um 3. grein.

a) Orðalagið: "Sækja skal um þær lokanir í Listagilinu í apríl fyrir hvert ár." getur skapað þann misskilning að sækja eigi um heimild til að loka í Listagilinu sjálfu. Gæti í.þ.m. verið skýrara.

b) Stjórn Akureyrarstofu varpar fram þeirri spurningu hvort eitthvert þak ætti að vera á fjölda heimilaðra lokana í Listagilinu á tilgreindu tímabili.


Tvær athugaemdir bárust:

1) Vilborg Jóhannsdóttir og Úlfar Gunnarsson í Centro, dagsett 21. mars 2016.

Ýmsar spurningar varðandi miðbæinn.

2) Herdís Hermannsdóttir dagsett 22. apríl 2016.

Spurt er hvernig aðgengi hreyfihamlaðra með P-merki verði tryggt að verslunum og þjónustu á svæðinu.
Skipulagsnefnd tekur undir athugasemd a) liðar Akureyrarstofu og spurningu Herdísar og mun gera breytingar á verklagsreglunum í samræmi við þær og leggur til við bæjarstjórn að þær verði samþykktar þannig breyttar.

Jafnframt þakkar skipulagsnefnd innsendar athugasemdir og ábendingar og felur skipulagsstjóra að svara þeim.

13.Hrísey, deiliskipulag hafnarsvæðis

Málsnúmer 2016020053Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri leggur til að hafin verði vinna við endurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðisins í Hrísey, en styrkur fékkst úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða að upphæð kr. 1.440.000, til deiliskipulags fyrir hafnarsvæði Hríseyjar sem hafi það m.a. að markmiði að endurspegla ímynd samfélagsins sem ferðamannastaðar. Styrkupphæð miðast þó að hámarki við 80% af heildarkostnaði við gerð skipulagsins.

Á fundinn kom Helga Íris Ingólfsdóttir frá verkefnisstjórn brothættrar byggðar í Hrísey og kynnti markmið verkefnisins.
Skipulagsnefnd þakkar Helgu fyrir kynninguna.

Skipulagsnefnd samþykkir að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið með ofangreint markmið í huga og felur skipulagsstjóra að hefja undirbúning þeirrar vinnu.

14.Hafnarstræti 106, borð fyrir framan verslun - umsókn

Málsnúmer 2016040161Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 19. apríl 2016 þar sem Aðalsteinn Árnason f.h. Drífu ehf. óskar eftir heimild til að setja upp borð fyrir framan Hafnarstræti 106.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu til næsta fundar.

15.Austurvegur 9 - umsókn um byggingarleyfi

Málsnúmer 2016040109Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 14. apríl 2016 þar sem Þröstur Sigurðsson f.h. Wave Guesthouse Hrísey ehf., kt. 480615-2390, sækir um að breyta efri hæð hússins nr. 9 við Austurveg í Hrísey í gistiskála. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Þröst Sigurðsson.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu til næsta fundar.

16.Miðbær - deiliskipulagsbreyting vegna fjölgunar lóða og breytingu á Torfunefsbryggju

Málsnúmer 2016010086Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram til kynningar tillögu að breytingum á deiliskipulagi miðbæjar. Um er að ræða fjölgun lóða fyrir hafnsækna ferðaþjónustu við Hofsbót, breytingar á Torfunefsbryggju o.fl. Tillagan er unnin af Ómari Ívarssyni hjá Landslagi.

Tvö erindi bárust frá Ambassador hvalaskoðun þann 16. mars 2016, annars vegar um hvort samþykki fengist til að flytja Wathne-húsið á lóð nr. 1 við Torfunef og gömlu Bátasmiðjuna á lóð nr. 3. Hins vegar er óskað eftir að komið verði upp bryggjukanti í vesturhluta hafnarinnar.


Umsögn vegna Torfunefsbryggju barst frá Minjastofnun Íslands, dagsett 19. apríl 2016.

Torfunefsbryggja var upphaflega byggð árið 1905 og endurreist árið 1907. Leifar bryggjunnar kunna að finnast undir landfyllingu Drottningabrautar og eru friðaðar. Ekki má raska friðuðum fornleifum nema með leyfi Minjastofnunar. Ef farið verður í framkvæmdir sem ógna fornleifum mun Minjastofnun fara fram á mótvægisaðgerðir. Ef ráðist verður í gerð nýrrar Torfunefsbryggju hvetur Minjastofnun til að skilyrði verði sett í deiliskipulag varðandi hönnun nýrrar bryggju.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu til næsta fundar.

17.Holtahverfi, austan Krossanesbrautar - deiliskipulag

Málsnúmer 2016040101Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri leggur til að gert verði deiliskipulag fyrir íbúðahverfi sem nær til svæðis vestan Sandgerðisbótar austan og út með Krossanesbraut skv. framlögðum uppdrætti með tillögu að afmörkun. Skipulagsstjóri kynnti yfirlit yfir fyrirhuguð deiliskipulagsverkefni á árinu.
Skipulagsnefnd frestar málinu milli funda.

18.Umhverfis- og samgöngustefna

Málsnúmer 2015010196Vakta málsnúmer

Lögð voru fram drög að umhverfis- og samgöngustefnu og óskað er eftir ábendingum og athugasemdum frá skipulagsnefnd.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu til næsta fundar.

19.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2016

Málsnúmer 2016010020Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 14. apríl 2016. Lögð var fram fundargerð 582. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 7 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 11:25.