Erindi dagsett 22. janúar 2018 þar sem Ingólfur Fr. Guðmundsson fyrir hönd Sigurðar Sveins Sigurðssonar og Guðrúnar Kristínar Blöndal sækir um byggingarleyfi fyrir bílskýli og breytingum og endurbyggingu á þaki húss nr. 4 við Bjarkarstíg. Skipulagsráð samþykkti, á fundi 4. apríl 2018, að tillaga að breytingu á deiliskipulagi yrði grenndarkynnt. Erindið var grenndarkynnt 6. apríl með athugasemdafresti til 4. maí 2018.
Ein athugasemd barst.
1) Umhverfis- og mannvirkjasvið, dagsett 14. maí 2018.
Yfirbyggt bílskýli mun skerða sýn að Davíðshúsi þegar gengið er upp Bjarkarstíg. Það er aðalaðkoma að húsinu fyrir gangandi gesti frá miðbænum. Stækkun á rými á þaki er talin vera of stór þar sem hún mun skerða útsýni í austur úr Davíðshúsi. Húsið er flokkað sem safn og gaman er fyrir gesti að sjá hvaða útsýni var fyrir augum Davíðs Stefánssonar.
Óskað var eftir umsögn höfundar húsakönnunar svæðisins á umbeðinni breytingu. Umsögn hans barst 16. maí 2018. Til bóta væri að minnka viðbygginguna og lækka til þess að hún beri ekki meginhúsið ofurliði. Grundvallarbreyting yrði á yfirbragði hverfisins ef bílageymslur yrðu byggðar á frálóðum húsa. Þak bílskýlis myndi einnig hafa verulega neikvæð áhrif á ásýnd Davíðshúss sem er friðuð bygging.