1. liður í fundargerð skipulagsnefndar dagsett 12. ágúst 2015:
Erindi dagsett 12. maí 2015 frá Snorra Finnlaugssyni sveitarstjóra Hörgársveitar sem óskar eftir breytingu á sveitarfélagamörkum með tilfærslu Lónslækjar til suðurs á móts við sláturhús B. Jensen í Hörgársveit, þannig að hægt verði að koma fyrir viðbyggingu við þá starfsemi sem þar er.
Skipulagsnefnd fól skipulagsstjóra að láta vinna aðalskipulagsbreytingu á sveitarfélagamörkunum vegna færslu Lónslækjar í samræmi við umræður á fundi skipulagsnefndar 13. maí 2015.
Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram tillögu að aðalskipulagsbreytingu dagsetta 15. júli 2015 unna af Árna Ólafssyni frá Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf.
Breyting þessi felur ekki í sér stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda, sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og er hún því ekki háð lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Breytingin er óveruleg og hefur hvorki áhrif á ósnortna náttúru, jarðmyndanir og vistkerfi, sem njóta sérstakrar verndar, verndarsvæði né skráðar fornminjar. Breytingin hefur ekki í för með sér neikvæð áhrif á nágranna eða landnotkun og nýtingu aðliggjandi svæða.
Skipulagsnefnd leggur því til við bæjarstjórn að tillagan verði samþykkt í samræmi við 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsstjóra falið að annast gildistöku hennar.
Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 3. lið fundargerðar bæjarstjórnar 2. júní 2015.
Helga Snæbjarnarsyni og Sigurði Guðmundssyni er falið að ræða við sveitarstjóra Hörgársveitar.
Ragnar Sverrisson áheyrnarfulltrúi S-lista óskar bókað að hann telji að taka eigi jákvætt í erindið og skoða þá hugmynd að færa Lónið 100m til suðurs með framtíðarsýn um göngustíg meðfram Lóninu frá Krossanesborgum upp í Glerárdal.