Bæjarráð

3236. fundur 26. ágúst 2010 kl. 09:00 - 11:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Oddur Helgi Halldórsson formaður
  • Halla Björk Reynisdóttir
  • Tryggvi Þór Gunnarsson
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson
  • Ólafur Jónsson
  • Andrea Sigrún Hjálmsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Hermann Jón Tómasson áheyrnarfulltrúi
  • Sigurður Guðmundsson áheyrnarfulltrúi
  • Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri
  • Dan Jens Brynjarsson fjármálastjóri
  • Jón Bragi Gunnarsson hagssýslustjóri
  • Heiða Karlsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Heiða Karlsdóttir
Dagskrá

1.Ráðning bæjarstjóra 2010 - 2014

Málsnúmer 2010070056Vakta málsnúmer

Lagður fram ráðningarsamningur við bæjarstjóra Eirík Björn Björgvinsson.
Bæjarstjóri vék af fundi við umræðu og afgreiðslu þessa liðar.

Bæjarráð staðfestir samninginn.

2.OneSystems - fundarmannagátt

Málsnúmer 2010080042Vakta málsnúmer

Dagný Magnea Harðardóttir skrifstofustjóri Ráðhúss kynnti nýjan vefaðgang að fundargögnum fyrir nefndarmenn og ræddi nýtt verklag við útsendingu gagna fyrir fundi bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Bæjarráð þakkar Dagnýju Magneu kynninguna.

3.Greið leið ehf - aukning hlutafjár

Málsnúmer 2010080075Vakta málsnúmer

Erindi dags. 18. ágúst 2010 frá stjórnarformanni Greiðrar leiðar ehf varðandi viljayfirlýsingu um aukningu hlutafjár í Greiðri leið ehf. Óskað er eftir að hluthafar félagsins taki afstöðu til viljayfirlýsingarinnar fyrir 1. september nk.
Viljayfirlýsingin er svohljóðandi:
Undirritaður hluthafi í Greiðri leið ehf, kt. 420403-2670, lýsir því hér með yfir að hann styður heils hugar framkomnar hugmyndir um þátttöku Greiðrar leiðar ehf í stofnun nýs félags með Vegagerðinni sem hefur það að markmiði að standa að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings svo og hugsanlega rekstur og viðhald jarðganganna.
Til þess að Greið leið ehf geti staðið við hlutafjárframlag sitt til fyrirhugaðs félags mun hluthafinn leitast við af fremsta megni að taka þátt í hlutafjáraukningu í Greiðri leið ehf, allt að 100 mkr., í hlutfalli við hlutafjáreign sína í félaginu. Stefnt er að því að hlutafjáraukningin fari fram innan 2ja ára frá stofnun félagsins. Þegar að því kemur mun verða boðað til hluthafafundar í félaginu sem taka mun endanlega ákvörðun um hlutafjáraukninguna og tilheyrandi, sbr. V. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirrita viljayfirlýsinguna fyrir hönd Akureyrarbæjar.  Bæjarráð leggur áherslu á þá fyrirvara sem fram koma í erindi Greiðrar leiðar ehf dags. 18. ágúst sl.

4.Bæjarsjóður Akureyrar - yfirlit um rekstur 2010

Málsnúmer 2010050056Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar yfirlit um rekstur aðalsjóðs janúar til júlí 2010.

5.Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar 2011

Málsnúmer 2010070048Vakta málsnúmer

Jón Bragi Gunnarsson hagsýslustjóri fór yfir tekjuþróun og forsendur fjárhagsáætlunar 2011.
Lagt fram til kynningar.

 

6.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2010

Málsnúmer 2010010128Vakta málsnúmer

Lögð fram 310. fundargerð afgreiðslufundar skipulagsstjóra dags. 17. ágúst 2010. Fundargerðin er í 15 liðum. Skipulagsstjóri óskar eftir staðfestingu bæjarráðs á 2., 3., 4., 5., 6., 7. og 8. lið. Aðrir liðir gefa ekki tilefni til ályktunar.

Bæjarráð hefur fullnaðarafgreiðsluheimild í sumarleyfi bæjarstjórnar sbr. bókun í 3. lið fundargerðar bæjarstjórnar 29. júní 2010.
Bæjarráð staðfestir 2., 3., 4., 5., 6., 7. og 8. lið í fundargerð afgreiðslufundar skipulagsstjóra dags. 17. ágúst 2010.

 

7.Hjallastefnan ehf - samningur um rekstur leikskóla

Málsnúmer 2009120021Vakta málsnúmer

4. liður í fundargerð skólanefndar dags. 16. ágúst 2010:
Fyrir fundinn var lögð tillaga að endurnýjuðum samningi við Hjallastefnuna ehf um rekstur leikskólans Hólmasólar. Í tillögunni er fallið frá vísitölubindingu 20% af rekstrarkostnaði og í staðinn tekið upp viðmið við meðaltalskostnað 7 leikskóla Akureyrarbæjar og breytist því kostnaðarviðmið samningsins samfara breytingum í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar.
Skólanefnd samþykkir fyrir sitt leyti fyrirliggjandi drög að samningi með fyrirvara um að niðurstaða ársreiknings Hjallastefnunnar ehf sé með eðlilegum hætti.

 Bæjarráð samþykkir samninginn.

Þegar hér var komið viku bæjarstjóri og Ólafur Jónsson af fundi kl. 11.07.

8.Vinnumálastofnun - umsóknir vegna atvinnuátaks - Akureyrarstofa

Málsnúmer 2009020174Vakta málsnúmer

Lagður fram til kynningar 2. liður í fundargerð stjórnar Akureyrarstofu dags. 19. ágúst 2010:
Lagt fram yfirlit um stöðu atvinnuátaksverkefna Akureyrarbæjar og Vinnumálastofnunar. Fyrir liggur að fjárveiting ársins 2010 til atvinnuátaksverkefna er uppurin og auknar fjárveitingar þurfa að koma til ef Akureyrarbær á að taka þátt í fleiri verkefnum.
María Helena Tryggvadóttir verkefnisstjóri sat fundinn undir þessum lið.
Stjórn Akureyrarstofu óskar eftir því að bæjarráð taki málið til umfjöllunar og taki afstöðu til þess hvort veita eigi frekara fjármagni til atvinnuátaksverkefna á árinu.

 

9.Sorpmál - framtíðarsýn

Málsnúmer 2009010228Vakta málsnúmer

1. liður í fundargerð umhverfisnefndar dags. 19. ágúst 2010:
Tekið fyrir erindi sem vísað var til umsagnar umhverfisnefndar frá bæjarráði 12. ágúst 2010.
Gunnar Garðarsson framkvæmdastjóri Sagaplast og Finnur Sveinsson sjálfstætt starfandi umhverfisverkfræðingur mættu á fundinn undir þessum lið.
Gunnar Svavarsson umhverfisverkfræðingur og Friðrik Klingbeil Gunnarsson hjá Eflu verkfræðistofu voru í símasambandi á fundinum.
Bæjarstjóri, Eiríkur Björn Björgvinsson, sat fundinn undir þessum lið.

Fulltrúar L-lista, Sigmar Arnarsson og Hulda Stefánsdóttir, samþykkja að leið B verði farin í sorphirðu hjá Akureyrarbæ.

Valdís Anna Jónsdóttir fulltrúi S-lista í umhverfisnefnd óskar bókað:
Í lok síðasta kjörtímabils var ákveðið að breyta sorphirðu í bænum og gera íbúum kleift að stórauka flokkun heimilissorps með svokölluðu þriggja íláta kerfi við hvert heimili. Þessi ákvörðun var tekin að lokinni vandlegri skoðun þeirra kosta sem til greina komu og með henni hugðust bæjaryfirvöld skipa Akureyri í fremstu röð sveitarfélaga hvað varðar meðhöndlun heimilisúrgangs og þjónustu við íbúa á þessu sviði.
Nýr meirihluti L-listans í bæjarstjórn virðist nú stefna að því að draga verulega úr þessum áformum og koma á skipulagi í sorphirðu sem þýðir minni þjónustu við bæjarbúa og mun neikvæðari umhverfisáhrif. Samfylkingin lýsir miklum vonbrigðum með þessar fyrirætlanir og skorar á bæjarstjórn að sýna metnað sinn í umhverfismálum með því að falla frá þessum áformum nýs meirihluta og staðfesta ákvörðun fyrrverandi bæjarstjórnar um fyrirkomulag sorphirðu á Akureyri.

Fulltrúi B-lista, María Ingadóttir, telur rétt að fara leið B í útboðinu sem skref í rétta átt í sorpmálum, en telur að leið A hefði hugnast betur ef allar forsendur hefðu staðist m.a. að Flokkun Eyjafjörður ehf hefði byggt flokkunarstöð eins og lagt var upp með í útboðinu.

Fulltrúi D-lista, Kolbrún Sigurgeirsdóttir, telur rétt að leið A verði farin.

Umhverfisnefnd vísar málinu til bæjarráðs.

Bæjarráð frestar afgreiðslu.

10.Norðurorka hf - hluthafafundur 2010

Málsnúmer 2010080081Vakta málsnúmer

Fram kom tillaga frá fulltrúum L-lista um að óska eftir því að stjórn Norðurorku hf boði til hluthafafundar. Ástæðan er breytingar í stjórn Norðurorku hf vegna nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillöguna.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson fulltrúi B-lista sat hjá við afgreiðslu.

11.Önnur mál

Málsnúmer 2010010117Vakta málsnúmer

Formaður bæjarráðs kynnti stöðu mála varðandi staðsetningu hjúkrunarheimilis.

12.Þingvallastræti 23 - ráðstöfun fasteignarinnar

Málsnúmer 2010010172Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar kauptilboð í húseignina Þingvallastræti 23.

Fjármálastjóra falið að vinna áfram að málinu.

Fundi slitið.

Fundi slitið - kl. 11:00.