Bæjarráð

3796. fundur 02. febrúar 2023 kl. 08:15 - 11:45 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Heimir Örn Árnason
  • Hlynur Jóhannsson
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir
  • Jana Salóme I. Jósepsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður ritaði fundargerð
Fundargerð ritaði: Jón Þór Kristjánsson forstöðumaður þjónustu og þróunar
Dagskrá

1.Húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar

Málsnúmer 2019020182Vakta málsnúmer

Liður 1 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 25. janúar 2023:

Lögð fram endurskoðuð tillaga að húsnæðisáætlun fyrir Akureyrarbæ 2023-2032.

Skipulagsráð leggur til að framlögð húsnæðisáætlun verði samþykkt með þeirri breytingu að gert verði ráð fyrir að félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélagins verði árlega 5% af nýju húsnæði og að hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði verði árlega 30%. Telur skipulagsráð húsnæðisáætlun því vera í samræmi við rammasamning ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum.

Málinu er vísað til afgreiðslu bæjarráðs.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Hulda Elma Eysteinsdóttir, Lára Halldóra Eiríksdóttir, Andri Teitsson og Gunnar Már Gunnarsson sátu fund bæjarráðs undir þessum lið í gegnum fjarfundarbúnað.
Bæjarráð samþykkir að vísa húsnæðisáætlun til umræðu og samþykktar í bæjarstjórn.

2.Móahverfi - auglýsing lóða

Málsnúmer 2022120463Vakta málsnúmer

Liður 2 í fundargerð skipulagsráðs dagsettri 25. janúar 2023:

Lagðar fram tvær tillögur að skilmálum fyrir úthlutun lóða í 1. áfanga Móahverfis.

Skipulagsráð leggur til við bæjarráð að lóðum í Móahverfi verði úthlutað á þann hátt að hluta lóða verði úthlutað samkvæmt útboðsleið með ákvæðum varðandi hlutdeildarlán og hluta samkvæmt forgangi varðandi stofnframlög.

Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð frestar afgreiðslu til næsta fundar.

3.Bæjarmálasamþykkt - breytingar og viðauki vegna barnaverndar

Málsnúmer 2023011383Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að breytingu á bæjarmálasamþykkt og viðaukum vegna breytinga á barnaverndarlögum nr. 80/2002.
Bæjarráð samþykkir breytingar á bæjarmálasamþykktinni og viðaukum sem tilkomnar eru vegna breytinga á barnaverndarlögum nr. 80/2002 og vísar þeim til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn.

4.Iðnaðarsafnið á Akureyri

Málsnúmer 2023020025Vakta málsnúmer

Rætt um málefni Iðnaðarsafnsins á Akureyri.

Haraldur Þór Egilsson safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri og Sigfús Karlsson formaður stjórnar Minjasafnsins á Akureyri sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð þakkar Haraldi Þór Egilssyni og Sigfúsi Karlssyni fyrir komuna á fundinn.

5.Súlur björgunarsveitin á Akureyri_samningur 2022-2024

Málsnúmer 2023011347Vakta málsnúmer

Samningur um styrk til reksturs Súlna 2022-2024 lagður fram til staðfestingar í bæjarráði.
Bæjarráð samþykkir framlagðan samning um styrk til reksturs Súlna og felur bæjarstjóra að skrifa undir samninginn fyrir hönd bæjarins.

6.Reglur um heimgreiðslur til foreldra í Akureyrarbæ

Málsnúmer 2022100188Vakta málsnúmer

Liður 8. í fundargerð bæjarráðs dagsettri 26. janúar 2023:

Liður 2 í fundargerð fræðslu- og lýðheilsuráðs dagsettri 16. janúar 2023:

Lögð fyrir til samþykktar drög að reglum um heimgreiðslur.

Áheyrnarfulltrúar: Andrea Ösp Andradóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Björg Sigurvinsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Daníel Sigurður Eðvaldsson fulltrúi foreldra grunnskólabarna, Ingi Jóhann Friðjónsson fulltrúi leikskólakennara og Telma Ósk Þórhallsdóttir fulltrúi ungmennaráðs.

Fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkir fyrirliggjandi reglur um heimgreiðslur með fimm atkvæðum.

Ásrún Ýr Gestsdóttir V-lista og Ísak Már Jóhannesson S-lista óska að bóka:

Þar sem þær reglur um heimgreiðslur sem hér eru lagðar fram til samþykktar eru í meginatriðum óbreyttar frá drögum sem kynnt voru á fundi þann 21. nóvember sl. vilja undirrituð ítreka bókanir sem gerðar voru við málið á því stigi. Ef koma skal á heimgreiðslum þyrfti það að vera tímabundin lausn meðan byggð verða upp leikskólapláss til að mæta þeirri vöntun sem er og verður til staðar og þá telja undirrituð nauðsynlegt að tekjutengja styrkina svo þeir nýtist aðeins þeim sem á þurfa að halda. Reglurnar eru kynntar sem tilraunaverkefni og því er mikilvægt að það liggi fyrir hvernig árangur tilraunarinnar verður metinn áður en hún hefst.

Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.

Bæjarráð frestar afgreiðslu og felur Kristínu Jóhannesdóttur sviðsstjóra fræðslu- og lýðheilsusviðs að vinna minnisblað um reglurnar og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

Bjarki Ármann Oddsson forstöðumaður skrifstofu fræðslu- og lýðheilsusviðs sat fundinn undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum fyrirliggjandi reglur um heimgreiðslur með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og vísar þeim til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Í reglunum er gert ráð fyrir að forráðamenn geti sótt um mánaðarlegar greiðslur sem nemi 105.000 kr. þegar barn nær 12 mánaða aldri. Greiðslur falli niður þegar barni býðst leikskólapláss eða pláss hjá dagforeldri.

Hilda Jana Gísladóttir situr hjá.


Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme I. Jósepsdóttir V-lista óska bókað:

Mikilvægast er að sveitarfélagið tryggi fjölgun leikskólarýma samhliða mati á því hvort og þá hvernig sé hægt að innrita 12 mánaða börn á leikskóla oftar yfir árið, en sérstaklega mikilvægt er að slíkt væri gert í samráði við fagfólk leikskólanna. Við höfum efasemdir um að með biðlistabótum, líkt og hér er um að ræða, sé jafnræðis gætt t.d. gagnvart fötluðu fólki sem er á biðlista eftir lögbundinni þjónustu. Það er óheppilegt að ekki liggi fyrir hvernig meta eigi árangurinn af umræddu tilraunaverkefni. Þá er óeðlilegt að ekki sé framkvæmt jafnréttismat áður en endanleg ákvörðun er tekin.


Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista óskar bókað:

Samþykki að bjóða heimgreiðslur til foreldra og forráðamanna í tilraunaskyni á meðan ekki hefur tekist að brúa bil fæðingarorlofs og leikskóla. Það hefur verið stefna Akureyrarbæjar frá hausti 2021 að innrita 12 mánaða börn inn á leikskóla og ætti því að setja í algjöran forgang að útfæra hvernig hægt sé að innrita 12 mánaða börn oftar yfir árið og eyða biðlistum í stað þess að horfa til heimgreiðslna í framtíðinni.

7.SSNE - boð um þátttöku í Grænum skrefum SSNE

Málsnúmer 2023011433Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. janúar 2023 frá SSNE þar sem Akureyrarbæ er boðin þátttaka í verkefninu Grænum skrefum.

Hafi sveitarfélagið áhuga á að taka þátt er óskað eftir að skipaður sé tengiliður við verkefnið og sá sendi staðfestingarpóst á netfangið graenskref@ssne.is.

Svar óskast fyrir 24. febrúar nk.

Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpmála sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir með fjórum atkvæðum að fresta afgreiðslu til næsta fundar. Hilda Jana Gísladóttir situr hjá.

8.Samband íslenskra sveitarfélaga - landsþing 2023

Málsnúmer 2023011481Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar erindi dagsett 26. janúar 2023 frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi boðun 38. landsþings sambandsins sem haldið verður á Grand hóteli í Reykjavík föstudaginn 31. mars nk. kl. 10:00.

9.Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - fundargerðir 2023

Málsnúmer 2023011346Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 917. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dagsett 20. janúar 2023.

10.Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra SSNE - fundargerðir stjórnar 2023

Málsnúmer 2023011377Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar fundargerðir 46. og 47. fundar stjórnar SSNE dagsettar 11. og 18. janúar 2023.

Fundi slitið - kl. 11:45.