Bæjarráð

3737. fundur 02. september 2021 kl. 08:15 - 09:12 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður
  • Gunnar Gíslason
  • Halla Björk Reynisdóttir
  • Hilda Jana Gísladóttir
  • Hlynur Jóhannsson
  • Sóley Björk Stefánsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri
  • Elín Dögg Guðjónsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Elín Dögg Guðjónsdóttir skjalastjóri
Dagskrá

1.Sérúrræði í leikskólum - ósk um viðauka

Málsnúmer 2021080200Vakta málsnúmer

Liður 6 í fundargerð fræðsluráðs dagsettri 23. ágúst 2021:

Óskin um viðauka var tekin fyrir á síðasta fundi fræðsluráðs og kom nú til 2. umræðu líkt og reglur segja til um.

Fræðsluráð samþykkir erindið og vísar því til bæjarráðs.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sat fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir beiðni fræðsluráðs um viðauka að fjárhæð 15,6 milljónir króna með fimm samhljóða atkvæðum og felur sviðsstjóra fjársýslusviðs að útbúa viðaukann.

2.Hofsbót 2 - útboð lóðar

Málsnúmer 2021060541Vakta málsnúmer

Lagt fram tilboð Boxhus ehf. upp á kr. 20.100.000 í byggingarrétt lóðarinnar Hofsbótar 2 ásamt gögnum um fjárhagsstöðu og fjármögnun lóðar og byggingarframkvæmda. Tilboðið var það þriðja hæsta sem barst en þau tilboð sem voru hærri voru dregin til baka.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs og Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Bæjarráð samþykkir tilboð Boxhus ehf. í byggingarrétt lóðarinnar Hofsbótar 2 með fimm samhljóða atkvæðum.

3.Lóð Bifreiðastöðvar Oddeyrar (BSO)

Málsnúmer 2020090447Vakta málsnúmer

Þann 29. september 2020 var fyrirsvarsmönnum BSO tilkynnt um uppsögn á bráðabirgðastöðuleyfi fyrir leigubifreiðastöð BSO við Strandgötu með vísan til deiliskipulags miðbæjar Akureyrar sem samþykkt var árið 2014.

Stöðuleyfi BSO var á dagskrá bæjarráðs þann 25. mars 2021, þar sem bæjarráð fól bæjarlögmanni að kynna fyrirsvarsmönnum BSO fyrirhugaða ákvörðun bæjarráðs. Með bréfi dagsettu 30. mars 2021 var fyrirsvarsmönnum BSO kynnt að bærinn fyrirhugi að fara fram á að félagið fari af lóðinni og fjarlægi mannvirki sín af svæðinu bótalaust fyrir 31. desember 2021. Fyrirsvarsmönnum BSO var jafnframt veitt tækifæri að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Í andmælum BSO var vísað til áður framkominna sjónarmiða og röksemda sem fram komu í erindum félagsins til Akureyrarbæjar í nóvember 2020 og janúar 2021. Þá var jafnframt óskað eftir fundi með bæjarstjóra, en sá fundur fór fram 2. júní 2021, þar sem lögmaður BSO kom að frekari sjónarmiðum.

Athugasemdir og sjónarmið BSO voru lögð fram á fundi bæjarráðs 3. júní 2021, en ákvörðun var frestað til frekari gagnaöflunar.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Mannvirki leigubifreiðastöðvar BSO hefur verið á bráðabirgðastöðuleyfi með sex mánaða uppsagnarfresti frá árinu 1955. Þá liggur enginn leigusamningur fyrir. Í gögnum bæjarins kemur fram að frá þeim tíma sem stöðuleyfi til bráðabirgða var veitt hefur BSO verið neitað um varanlegt stöðuleyfi þegar erindi þess efnis hefur komið til bæjarins. Núgildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir að mannvirki BSO víki af svæðinu.

Með vísan til ákvæða deiliskipulags miðbæjar Akureyrar og umferðaröryggis fer Akureyrarbær fram á það að félagið fari með mannvirki sín af lóðinni fyrir 1. apríl 2022. Þar sem engum lóðarleigusamningi er fyrir að fara eru engin ákvæði um skyldu bæjarins að leysa til sín mannvirki félagsins eða greiða bætur fyrir mannvirki þess við uppsögn stöðuleyfisins, enda er það eðli stöðuleyfis að mannvirki eru aðeins heimiluð til bráðabirgða og við lok þess tíma skuli fjarlægja mannvirki á kostnað eiganda, bótalaust.

Bæjarráð felur bæjarlögmanni og sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna forsvarsmönnum BSO ákvörðunina og ræða mögulega framtíðarstaðsetningu fyrir atvinnurekstur.

4.HGH verk ehf. - lóð við Þingvallastræti lóðanr. 149789 og við Súluveg lóðanr. 149595

Málsnúmer 2015060134Vakta málsnúmer

Frá árinu 2012 hefur Akureyrarbær verið í samskiptum við fyrirsvarsmann HGH verks ehf. (Möl og sandur) vegna tveggja lóða fyrir atvinnurekstur við Súluveg, með landnúmer 149595 og 149596, en samkvæmt aðalskipulagi á að vera grænt svæði á nyrðri lóð HGH (landnr. 149595) og samkvæmt deiliskipulagi frá 2013 er lóð HGH með landnr. 149595 felld niður (grænt svæði) og lóðarmörk hinnar (landnr. 149596) breytt.

Samningar um lóðirnar voru tímabundnir og þegar þeir runnu út 1. mars 2013 voru þeir framlengdir tímabundið til 1. mars 2016 og aftur árið 2016 til ársins 2017, en seinni viðaukinn var ekki undirritaður af lóðarleiguhafa. Lóðarleigusamningarnir eru því útrunnir.

Þann 10. mars 2021 voru lagðar fram hugmyndir HGH um framtíðarnýtingu á lóðum við Súluveg fyrir skipulagsráð, en skipulagsráð hafnaði tillögu um að breyta deiliskipulagi svæðisins. Þann 22. mars 2021 sendi fyrirsvarsmaður HGH tillögu til bæjarins um lausn lóðamála fyrirtækisins.

Lóðamál HGH voru á dagskrá bæjarráðs þann 25. mars 2021, þar sem bæjarráð fól bæjarlögmanni að kynna fyrirsvarsmanni HGH fyrirhugaða ákvörðun bæjarráðs. Með bréfi dagsettu 29. mars 2021 var fyrirsvarsmanni HGH kynnt að bærinn fyrirhugi að fara fram á að félagið fari af lóðinni og fjarlægi mannvirki sín af svæðinu bótalaust. Fyrirsvarsmanni HGH var jafnframt veitt tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Í andmælum HGH var m.a. farið fram á að Akureyrarbær dragi þegar í stað til baka yfirlýsingu um að fyrirhugað sé að gera félaginu að víkja bótalaust af eign sinni. Þá var óskað eftir því að lögmaður félagsins fengi að koma á fund bæjarráðs og kynna sjónarmið félagsins.

Athugasemdir og sjónarmið HGH voru lögð fyrir fund bæjarráðs 3. júní 2021, en ákvörðun var frestað til frekari gagnaöflunar. Þann 24. júní 2021 komu fyrirsvarsmaður og lögmaður HGH á fund bæjarráðs og reifuðu sín sjónarmið.

Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs, Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs og Inga Þöll Þórgnýsdóttir bæjarlögmaður sátu fund bæjarráðs undir þessum lið.
Ekki er til heildstæð löggjöf um lóðarleigusamninga og því ræðst réttur leigutaka og leigusala af efni viðkomandi lóðarleigusamnings og dómafordæma. Tveir stefnumarkandi dómar skýra réttarsambandið. Með dómi Hæstaréttar 240/2003 var sveitarfélaginu Hornafirði heimilað að fá S hf. borið út af lóð með bensínstöðvar- og veitingahús sitt og öllu sem því tilheyrði, þar með töldum olíu- og bensínstönkum í jörðu, að leigutíma loknum. Í forsendum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, kemur fram að ekki verði talið að „óskráð skylda hvíli á lóðarleigusala að kaupa alltaf mannvirki lóðarleigjanda á leigulóðinni á sanngjörnu verði við lok leigusamnings hvernig sem samningurinn er að öðru leyti orðaður.“ Þá var með úrskurði Landsréttar 138/2018, fallist á að Seltjarnarnesbæ væri heimilt að fá félagið I ehf., ásamt söluskála félagsins, borið út af tiltekinni lóð bæjarins eftir lok leigutíma, en lóðarleigusamningur bar ekki með sér að leigusali hefði tekið á sig skyldur til þess að kaupa upp eða leysa til sín mannvirki á hinni leigðu lóð eða að leigutaki ætti bótarétt á hendur leigusala.

Í hinum tímabundnu lóðarleigusamningum HGH og Akureyrarbæjar er ekki að finna ákvæði sem tekur á því hvað skuli gerast við lok samningstímans. Þannig er hvorki kveðið á um skyldu leigusala til þess að leysa til sín mannvirki né um bótarétt. Af dómaframkvæmd er því ljóst að Akureyrarbær getur krafist þess að eigandi mannvirkja víki af leigulóð við lok tímabundins leigutíma og fjarlægi mannvirki sín af lóðinni bótalaust, nema um annað sé samið.

Með vísan til þess að hinir tímabundnu lóðarleigusamningar bera ekki með sér að Akureyrarbær hafi skyldur til að leysa til sín mannvirki félagsins eða greiða bætur fyrir mannvirki þess við lok leigutímans, fer Akureyrarbær fram á það að HGH verk ehf. fari af lóð með landnúmer 149595 og fjarlægi mannvirki sín af lóðinni bótalaust fyrir 1. júní 2022.

Bæjarráð felur bæjarlögmanni og sviðsstjóra skipulagssviðs að kynna forsvarsmanni HGH ákvörðunina og ræða möguleika á framtíðarstaðsetningu fyrir atvinnurekstur HGH.

Forsvarsmanni HGH er jafnframt leiðbeint um að hann getur óskað eftir nýjum lóðarleigusamningi fyrir lóð með landnr. 149596, en samkvæmt deiliskipulagi verður ný lóð 16.647 m².

5.Alþingiskosningar 2021

Málsnúmer 2021060932Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. ágúst 2021 frá formanni kjörstjórnar Akureyrar vegna komandi alþingiskosninga þann 25. september nk. Þar kemur fram tillaga kjörstjórnar um að Akureyrarbæ verði skipt í tólf kjördeildir þannig að tíu verði á Akureyri, ein í Hrísey og ein í Grímsey. Á Akureyri verði kjörstaður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, í Hrísey verði kjörstaður í Hríseyjarskóla og í Grímsey í Félagsheimilinu Múla. Lagt er til að tveir kjörklefar verði í hverri kjördeild á Akureyri, Hrísey og Grímsey. Þá hefur kjörstjórnin enn fremur ákveðið að leggja til við bæjarráð að kjörfundur standi frá kl. 09:00 til kl. 22:00 á Akureyri, Hrísey og Grímsey. Óskar kjörstjórn eftir því við bæjarráð að ofangreindar tillögur verði samþykktar.
Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur formanns kjörstjórnar vegna komandi Alþingiskosninga þann 25. september nk. með fimm samhljóða atkvæðum.

Fundi slitið - kl. 09:12.