Bæjarráð Akureyrar gagnrýnir harðlega að enginn utan höfuðborgarsvæðisins sitji í starfshópi um stefnu stjórnvalda í flugmálum. Í þessari vinnu eru samfélags- og byggðasjónarmið ekki höfð að leiðarljósi, að mati bæjarráðs.
Í september í fyrra skipaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verkefnisstjórn til að móta flugstefnu fyrir Ísland, en slík stefna hefur ekki verið mótuð áður með heildstæðum hætti. Starfshópurinn skilaði af sér drögum að grænbók sem voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í lok júlí. Almenningi og hagsmunaaðilum var boðið að gera athugasemdir við skýrsluna, en umsagnafrestur rennur út í dag, 16. ágúst.
Enginn frá sveitarfélögum í starfshópnum
Bæjarráð fjallaði um málið á fundi í gær og mótmælir þeim skamma fresti sem er gefinn, yfir sumarmánuði, til að gera athugasemdir.
Þá gerir bæjarráð alvarlegar athugasemdir við skipan starfshópsins. „Svo virðist sem enginn utan höfuðborgarsvæðisins sitji í starfshópnum. Auk þess sitja engir fulltrúar sveitarfélaga í starfshópnum en bæjarráð telur eðlilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga ætti fulltrúa í starfshópnum enda um mikið hagsmunamál fjölmargra sveitarfélaga að ræða.
Bæjarráð telur samfélags- og byggðasjónarmið ekki höfð að leiðarljósi við vinnuna og lýsir yfir vonbrigðum með að þvert á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar virðist ekki vera vilji til að opna fleiri gáttir inn í landið og lítil ástæða talin til að flokka aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll sem millilandaflugvöll,“ segir í bókun bæjarráðs.
Bæjarstjóra hefur verið falið að skila inn umsögn vegna málsins.