Fyrsta útgáfa íbúaapps Akureyrarbæjar er nú aðgengileg fyrir bæði Apple og Android stýrikerfi. Skorað er á bæjarbúa að hlaða niður appinu og prófa það. iPhone notendur slá inn leitarorðið Akureyrarbær í App Store í símanum sínum en Android notendur finna appið í Play Store.
Það sem e.t.v. vekur mesta athygli í þessari fyrstu útgáfu íbúaappsins er annars vegar rafrænt gámakort og hins vegar sérstök ábendingargátt. Einnig eru ýmsar tilkynningar frá sveitarfélaginu birtar í appinu, sorphirðudagatal, upplýsingar um stofnanir bæjarins og viðburðadagatal bæjarins birtist á aðgengilegan hátt. Því má segja að þegar bæjarbúar eru komnir með appið í símann sinn þá hafi þeir Akureyri í vasanum.
Rafrænt gámakort kemur í stað klippikortanna sem fólk hefur notað fram að þessu en gömlu pappakortin verða þó áfram í gildi fyrir þá sem það vilja. Rafræna gámakortið hefur fólk alltaf við höndina í símanum sínum og hakar við í appinu þegar farið er með úrgang til losunar. Hverri fasteign fylgja 16 klipp á ári til eigenda en aðeins einn eigandi getur sótt inneign fyrir hverja fasteign. Viðkomandi getur hins vegar gefið klipp áfram til annarra fjölskyldumeðlima. Í appinu er einnig hægt að kaupa inneign ef þessi 16 klipp duga ekki yfir árið. Hér eru ítarlegar leiðbeiningar um notkun rafræna gámakortsins í appinu.
Ábendingagáttin er skemmtileg nýbreytni sem gefur fólki kost á að senda sveitarfélaginu ábendingu um ýmislegt sem betur má fara á förnum vegi með textaskilaboðum, mynd og staðsetningu. Sem dæmi má nefna að ef fólk rekst á brotna ruslatunnu eða dauðan ljósastaur þá má veiða símann upp úr vasanum, taka mynd og senda ábendingu á einu augabragði. Skilaboðin fara sjálfkrafa í málaskrá sveitarfélagsins og berast til úrlausnar þeim sem ábyrgð bera í viðkomandi málaflokki.
Nú er um að gera fyrir bæjarbúa að prófa íbúaappið en gáið að því að það er enn í þróun og verður útfært með ýmsum nýjum lausnum á næstu mánuðum og misserum. Markmiðið með appinu er bæta aðgengi að þjónustu og fjölga samskiptaleiðum milli bæjarbúa og sveitarfélagsins. Tilurð appsins og þróun þess er liður í aukinni stafrænni sókn sveitarfélagsins.
Ábendingar um virkni appsins má senda í gegnum gáttina í appinu sjálfu eða á heimasíðunni.