Barnamenningarhátíð á Akureyri fer fram í apríl!
Fjöldi spennandi viðburða og sýninga sem hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi verða í boði. Hægt er að skoða viðburðadagatalið á barnamenning.is.
Eitt meginmarkmið hátíðarinnar er að öll þátttaka barna og ungmenna sé þeim að kostnaðarlausu. Í ár er sérstök áhersla lögð á samverustundir fjölskyldna.
Alls eru um 40 viðburðir á dagskrá og enn má búast við að það bætist við viðburðadagatalið. Það ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er danssmiðjur, listasmiðjur, ullarþæfingasmiðja, ljóðasmiðja, grímugerð, brúðuleikhús, danssýning, tískusýning, bíósýning og margt fleira. Auk árlegra viðburða á borð við Myndlistarverkstæði Gilfélagsins, loka-tónleikar Upptaktsins og Hæfileikakeppni Akureyrar.
Einn af hápunktum hátíðarinnar verður án efa tónleikar Sumartóna í Hofi en þar munu engir aðrir en VÆB bræður heimsækja Akureyri í sitt fyrsta skipti. Athugið að í ár fara Sumartónar í Hofi fram 8. apríl en ekki á Sumardaginn fyrsta eins og hefð hefur verið fyrir. Kynning tónleikanna verður í höndum Ungmennaráðs og stelpuhljómsveitin Skandall hitar upp.
Á Sumardaginn fyrsta verður samt sem áður þétt og skemmtileg dagskrá í Hofi sem og áhugaverðir viðburðir í Leikfangahúsinu, Iðnaðarsafninu, Nonnahúsi, Davíðshúsi og á Minjasafni Akureyrar. Sumardagurinn fyrsti er einmitt Eyfirski safnadagurinn og því frítt inn á öll söfnin. Komdu og taktu þátt í ratleik um söfnin!
Elísabet Ögn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar, hvetur fólk til þess að kynna sér viðburðadagatalið vel. „Og svo er bara að njóta þess að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum í apríl. Af nógu er að taka,“ segir Elísabet Ögn.
Hægt er að fylgjast með uppákomum á Barnamenningarhátíð á samfélagsmiðlum Akureyrarbæjar á Facebook og Instagram.
Barnamenningarhátíð á Akureyri stendur frá 1. apríl til 27. apríl en þetta er í áttunda skipti sem hátíðin er haldin.