Jazztónleikar til heiðurs Karli Petersen trommuleikara verða haldnir á Græna Hattinum föstudagskvöldið 29. febrúar í samstarfi vina Kalla heitins og Jazzklúbbs Akureyrar.
Hljómsveitin Nanúna var stofnuð af Kalla og vinum hans Wolfgang Sahr og Stefáni Ingólfssyni árið 1998 til að flytja frumsamda tónlist. Fyrstu gítarleikarar hljómsveitarinnar voru Róbert Reynisson og Ólafur Haukur Árnason og voru haldnir þrennir tónleikar. Nú eru í hljómsveitinni auk Stebba og Wolla píanóleikarinn Aládar Rácz, gítaristinn Hallgrímur Ingvason, trommarinn Ingvi H. Ingvason og á slagverki Dallas Gambrell.
Karl Petersen var um árabil ötull sem aðaltrommari, slagverksmaður og slagverkskennari á Akureyri. Hann lék jöfnum höndum sígilda tónlist og jazz. Hann afkastaði á skammri ævi miklu brautryðjandastarfi á sviði sinnar listgreinar á Akureyri. Fjölbreytni ásláttarhljóðfæra og góð aðstaða til kennslu á slagverk í Tónlistarskólanum á Akureyri er ekki síst forystuhlutverki hans á þessu sviði að þakka.
Vinir Kalla, Nanúna og fleiri leggja þessum tónleikum ókeypis lið, en öllum ágóða verður varið til kaupa á nótum og kennslubókum fyrir slagverk að vali núverandi slagverkskennara við Tónlistarskólann á Akureyri og afhent skólanum.
Aðgöngumiðar á tónleikana á kr. 1.500 verða seldir við innganginn. Tónleikarnir hefjast klukkan 21.30 en húsið opnar klukkan 21.00.