Þórgnýr Dýrfjörð og Sóley Björk Stefánsdóttir kynna verkefni Akureyrarbæjar.
Fulltrúar Akureyrarbæjar tóku á föstudag þátt í vinnustofu, ásamt þremur öðrum sveitarfélögum, í tengslum við tilraunaverkefni um aukið íbúasamráð. Ákveðið hefur verið að hafa samráð við börn og ungmenni um breytingar á leiðarkerfi og þjónustu strætó.
Forsaga verkefnisins er sú að bæjarstjórn samþykkti að leita leiða til að auka þátttöku íbúa og að stíga markviss skref í átt til þátttökulýðræðis. Í kjölfarið var samstarfs leitað við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur beitt sér fyrir aukinni samráðsmenningu í sveitarfélögum, ekki síst til að bregðast við minnkandi trausti á hefðbundnum stjórnmálum. Ákveðið var að ráðast í tilraunaverkefni ásamt nokkrum öðrum sveitarfélögum með styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Alls sóttu tíu sveitarfélög um þátttöku en valin voru, auk Akureyrarbæjar, Norðurþing, Stykkishólmsbær og Kópavogsbær. Fyrsti samráðsfundur var haldinn í Kópavogi í lok ágúst. Á föstudaginn var haldinn annar vinnufundur á Akureyri með fulltrúum þátttökusveitarfélaganna, Sambandinu og sænskum og íslenskum ráðgjöfum. Sveitarfélögin kynntu sín verkefni, báru saman bækur sínar og fengu ráðgjöf um næstu skref.
Ákveðið hefur verið að verkefni Akureyrarbæjar snúist um samráð við börn og ungmenni um breytingar á leiðarkerfi og þjónustu Strætisvagna Akureyrar (SVA). Verkefnið var valið vegna þess að fyrirhuguð er endurskoðun á kerfinu, auk þess sem það samræmist aðgerðaáætlun Akureyrarbæjar um innleiðingu barnasáttmálans. Markmiðið er að fá fram sjónarmið ungs fólks og taka tillit þeirra við breytingar, auk þess að læra meira um árangursríkar samráðsaðferðir sem gætu nýst við stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélagsins til framtíðar.
Í stýrihópi vegna verkefnisins á Akureyri eru Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og Þórgnýr Dýrfjörð, deildarstjóri Akureyrarstofu. Auk stýrihópsins koma að verkefninu Hrafn Svavarsson, rekstrarstjóri SVA, Alfa Dröfn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags og Jón Þór Kristjánsson, verkefnastjóri upplýsingamiðlunar.
Næsta skref er að undirbúa samráðsviðburði með unga fólkinu sem verða haldnir fyrir áramót. Stefnt er að því að fá enn fleiri íbúa að borðinu í framhaldinu þannig að fyrirhugaðar endurbætur á leiðarkerfi gangi vel og taki mið af þörfum sem flestra Akureyringa. Fróðlegt verður að fylgjast með verkefninu og verða sagðar frekari fréttir eftir því sem vinnunni vindur fram.