Þrír leikskólar til viðbótar orðnir Réttindaleikskólar

Sigyn Blöndal afhendir börnum á Krógabóli litabækur.
Sigyn Blöndal afhendir börnum á Krógabóli litabækur.

Enn heldur Réttindaskólaverkefnið áfram að blómstra á Akureyri en föstudaginn 21. júní hlutu þrír leikskólar, Krógaból Kiðagil og Hulduheimar viðurkenningu sem Réttindaleikskóli UNICEF. Mikil hátíðarhöld voru í leikskólunum þar sem börnin sungu, tóku á móti viðurkenningum, gæddu sér á ljúffengum veitingum og nutu sín í gleðinni eftir að Sigyn Blöndal, Réttindaskólastjóri UNICEF hafði afhent réttindaráðum skólanna viðurkenningu, fána og litabækur.

Akureyrarbær óskar leikskólunum, starfsfólki og börnum, hjartanlega til hamingju með áfangann og þakkar starfsfólki UNICEF sömuleiðis fyrir gjöfult samstarf í þágu réttinda barna.

Í heildina hafa nú fimm leikskólar og tveir grunnskólar Akureyrarbæjar hlotið viðurkenningu sem Réttindaskólar og því ber að fagna í barnvænu sveitarfélagi.


Réttindaskólar
Þeir leikskólar sem taka þátt í verkefninu leggja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna til grundvallar í öllu sínu starfi, þ.e. skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum. Markmiðið er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi sem styður við réttindi barna, þar sem lögð er áhersla á aukna þekkingu starfsfólks og barna á réttindum barna og tækifæri til raunverulegrar þátttöku barnanna í ákvarðanatöku í málefnum er snúa að þeim.


Lesa má nánar um Réttindaskólaverkefni UNICEF hér og leikskólaangann af því hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan