Mikil umræða hefur að undanförnu skapast um svifryk, salt og sjó á götur og óhreina bíla á Akureyri. Ýmsar spurningar og sjónarmið hafa komið upp í þessari umræðu, á samfélagsmiðlum, í fréttum og á kaffistofum bæjarins. Þar af leiðandi er hér gerð tilraun til að draga saman helstu atriði og svara nokkrum spurningum um þetta stóra verkefni Akureyrarbæjar, að draga úr svifryksmengun:
Hvers vegna er oft mikið svifryk á Akureyri?
Svifryksmengun orsakast af ýmsum þáttum, en umferð og uppþyrlun göturyks eru meðal helstu uppspretta. Ástandið er einna verst á kyrrum og þurrum dögum sem eru algengir á Akureyri. Vaxandi umferð, og mikil notkun nagladekkja, bætir enn frekar við vandamálið.
Hvers konar hálkuvarnarefni er notað á Akureyri?
Til hálkuvarna er notað brotið efni úr sterkri klöpp sem hefur gott viðnám (kornastærð 2-6 mm). Til að draga úr svifryki er fínefnið sigtað frá og einnig er blandað lítillega með salti (5-7%).
Hvaða aðferðum er beitt til að sporna við því að ryk á götum breytist í svifryksmengun?
Í grunninn eru þrjár aðferðir til að draga úr því að svifryk á götum fari af stað í þurrum veðrum. Það er rykbindiefni (sjór, saltpækill og MgCl), sópun og þvottur á götum. Besta aðferðin er að þvo göturnar en það er aðeins hægt að gera þegar götur eru alveg auðar og hitastig vel yfir frostmarki. Þá er sópun mjög öflugt tæki en nær ekki að hreinsa upp allt laust ryk af götunum. Einfaldasta leiðin, sem virkar í flestum aðstæðum, er að nota rykbindiefni. Sjó er hægt að nota til rykbindingar þegar frostlaust eða mjög lítið frost er í götu, en þegar frostið eykst þarf að blanda saltpækil (ferskvatn og salt) svo ekki myndist ísing. Magnesíumklóríð er hægt að nota í miklu frosti og bindur það raka enn lengur í götunni.
Hvað er Akureyrarbær að gera akkúrat núna?
Starfsfólk bæjarins, Vegagerðarinnar og Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra vinnur nú að aðgerðaáætlun til þess að lágmarka svifryk. Í þeirri vinnu, sem er á lokametrunum, er meðal annars tekið tillit til ábendinga frá Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra en útfærsla liggur ekki fyrir á þessari stundu. Þetta er mikið forgangsmál hjá Akureyrarbæ um þessar mundir og verður leitað allra leiða til að draga úr svifryki og er vonast til að það verði gert í sátt við íbúa.
Hvers vegna þarf að salta göturnar?
Sandur til hálkuvarna á Akureyri hefur verið blandaður lítillega með salti í 10 ár. Saltið minnkar rykmyndun og gerir það að verkum að auðveldara er að vinna með efnið í frosti. Engin breyting hefur orðið þar á og hefur ekki verið ákveðið að skipta alfarið yfir í salt. Undanfarnar tvær vikur hafa veðurskilyrði og aðstæður kallað á rykbindingu til þess að koma í veg fyrir/draga úr mikilli svifryksmengun. Brugðist var við með því að bleyta götur með sjó, en í sumum tilvikum hefur þótt ástæða til að blanda lítillega með salti svo að sjórinn frjósi ekki á götum og verði hættulegur. Með því að setja saltpækil í göturnar haldast þær lengur blautar og svifrykið safnast fyrir í þeim í stað þess að þyrlast upp og fjúka um.
Hvaða áhrif hefur rykbinding á loftgæði?
Reynslan hefur sýnt að merkjanlegur munur er á loftgæðum þegar þetta er gert. Dagana 12. og 13. nóvember mældist svifryk á Akureyri yfir mörkum og þurfti því að grípa til aðgerða. Notaður var sjór og saltpækill eftir veðuraðstæðum hverju sinni. Þetta var svo aftur gert 18. og 19. nóvember. Þessar aðgerðir hafa skilað góðum árangri og komið í veg fyrir svifryksmengun í bænum. Ekki hefur þurft að grípa til frekari rykbindi-aðgerða að svo stöddu, en þegar betri aðstæður sköpuðust hófst vinna við sópun á götum bæjarins.
Hvers vegna eru bílarnir svona skítugir?
Ástæða þess að bílar verða skítugir er vegna þess að götur eru skítugar. Ýmsar ástæður kunna að vera fyrir því. Ein þeirra er talin vera sú að með sjó/saltpækli er rykið bundið við göturnar í stað þess að það svífi um andrúmsloftið og í ákveðnum veðuraðstæðum geta myndast óhreinindi sem festast auðveldlega á bílum. Kosturinn er sá að rykið sem bundið er niður með þessum hætti skapar ekki heilsuspillandi mengun en gallinn er sá að bílar verða skítugri en ella. Ekkert bendir til þess að þetta verði viðvarandi ástand á Akureyri, enda er saltpækill aðeins notaður í sérstökum aðstæðum og þá þurfa að bætast við sérstök veðurskilyrði til að efnið leysist upp í óhreinindi í sama magni og síðustu daga.
Hvernig og hvenær eru göturnar hreinsaðar?
Sæta þarf lægi og sópa þegar færi gefst, það er þegar göturnar eru auðar (ekki snjór eða klaki) og ófrosnar. Þegar hitastig kemst vel yfir frostmark í tvo sólahringa er lagt upp með að háþrýstiþvo þær. Vafalaust mætti gera betur í þessum efnum.
Þarf að gera átak í að þvo götur?
Já, það er lykilatriði. Hvort sem salt eða sandur er notaður til að hálkuverja þá þarf að þrífa göturnar betur. Rætt er um að bærinn kaupi góðan götusóp þannig að hægt sé að sópa meira og oftar.
Sumir hafa lýst áhyggjum af því að sjórinn sem borinn er á götur geti verið mengaður?
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur staðfest að sjórinn sem er tekinn norður við Krossanes og notaður í þessum tilgangi sé ekki mengaður og þar af leiðandi ekki skaðlegur.
Hvers vegna er svona mikil áhersla á að draga úr svifryki?
Svifryk eru smágerðar agnir, undir 10 míkrómetrum, sem svífa um í andrúmsloftinu. Áhrif á heilsu fólks eru að miklu leyti háð stærð agnanna. Fínustu agnirnar geta auðveldlega komist niður í lungu og stuðlað að og ýft upp öndunarfærasjúkdóma. Meðal kvilla sem svifryk hefur verið tengt við er astmi ofnæmi, hjartsláttaróregla og lungnateppa. Aldraðir, börn og þeir sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma eru viðkvæmastir. Svifryk er í raun mjög hættulegt. Sérfræðingar hafa metið það svo að á Íslandi verði allt að 80 ótímabær dauðsföll á ári sem megi rekja til svifryks.