Ungmennaráð Akureyrarbæjar ásamt umsjónarmönnum stórþingsins og Hönnu Borg Jónsdóttur, verkefnisstjóra barnvænna sveitarfélaga hjá UNICEF á Íslandi.
Þriðjudaginn 28. febrúar var "Stórþing ungmenna" haldið í Hofi á Akureyri í þriðja sinn. Akureyrarbær er barnvænt sveitarfélag og í því felst meðal ananrs að leita markvisst eftir röddum unga fólksins. Stórþingið er einn liður í því en tilgangurinn er að veita börnum og ungmennum vettvang til að koma á framfæri skoðunum sínum og hugmyndum um þau atriði sem helst brenna á þeim og koma þeim skilaboðum áleiðis til bæjaryfirvalda. Ungmennaráð bæjarins ber hitann og þungann af þinginu en ráðið setti þingið eftir að hafa kynnt sína starfsemi og undirstrikað mikilvægi þess að ungmennin sem þarna væru samankomin myndu ekki liggja á sínum skoðunum.
Um 120 ungmenni á aldrinum 12-18 ára tóku þátt í þinginu og ræddu ýmis mál, s.s. samgöngur, geðheilbrigði, tómstundir og skólamál. Sem dæmi um það sem oft var nefnt var að götu- og göngustígalýsing mætti víða vera betri og að skoða þurfi betur hjólastólaaðgengi í bænum. Stemningin var gríðarlega góð, áhugaverðar og gagnlegar umræður áttu sér stað og enn og aftur kemur það í ljós hve mikill auður er í börnum í sveitarfélaginu. Gott er að muna að þau eru ekki bara framtíðin heldur eru þau nútíðin og mikilvægt að bjóða þeim aðkomu að lýðræðisborðinu.
UNICEF á Íslandi hefur stutt dyggilega við verkefnið Barnvænt sveitarfélag á Akureyri síðustu árin og því var vel við hæfi að Hanna Borg Jónsdóttir, verkefnisstjóri barnvænna sveitarfélaga hjá UNICEF, kom á þingið og flutti þar erindi um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mikilvægi merkingarbærrar þátttöku barna.
Þakka ber öllum þeim sem tóku þátt í þessu metnaðarfulla þingi. Það verður ánægjulegt að fylgjast með afrakstri þessarar vinnu á næstu misserum.