Skýringarmynd úr greinargerð: Uppbyggingu fyrri áfanga lokið.
Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti í gær að auglýsa endurskoðaða tillögu að breytingu á miðbæjarskipulagi. Gerðar hafa verið breytingar til að koma til móts við athugasemdir og umsagnir, auk þess sem brugðist hefur verið við niðurstöðu vindgreiningar.
Drög að deiliskipulagsbreytingu voru kynnt í desember fyrir svæði sem afmarkast við Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu, Hofsbót og Strandgötu. Haldinn var rafrænn íbúafundur, auk þess sem kynningargögn voru gerð aðgengileg á heimasíðu Akureyrarbæjar. Sjá helstu upplýsingar um málið í frétt frá 10. desember.
Uppbyggingu skipt í tvo áfanga
Athugasemdir og umsagnir sem bárust í kjölfarið voru hafðar til hliðsjónar við frekari vinnslu tillögunnar. Helsta breytingin á upphaflegum áætlunum felur í sér að áfangaskipta verkefninu, enda er um að ræða mjög umfangsmikla uppbyggingu í miðbæ Akureyrar.
Stefnt er að því að í fyrri áfanga verði byggðar upp lóðir við Hofsbót 1 og 3 ásamt aðalgönguás á milli Skipagötu og Glerárgötu. Í seinni áfanga yrði þá byggt á lóðum við Skipagötu 11 og 13. Þetta þýðir að 120 af 190 almennum bílastæðum á svæðinu verða á sínum stað þar til uppbyggingu á lóðum við Hofsbót 1 og 3 er lokið. Fylgst verður náið með nýtingu bílastæða næstu árin og áhrif þeirra metin á þjónustu og verslun í miðbænum.
Aðgerðir til að bæta vindaðstæður
Síðan drögin voru kynnt hafa sérfræðingar einnig lagt mat á og greint staðbundið vindafar á svæðinu. Jafnvel þótt vindaðstæður í kringum nýbyggingar uppfylli að mestu gæðakröfur þá benda niðurstöður til þess að vindhröðun í kringum horn bygginga á ákveðnum svæðum sé heldur mikil.
Lagðar eru til mótvægisaðgerðir sem snúa að útfærslu byggingareita, en einnig er bætt við kvöð um trjágróður á völdum stöðum. Þá er gerð krafa um að við hönnun bygginga skuli gera vindgreiningu og grípa til mótvægisaðgerða sé þeirra þörf.
Deiliskipulagsbreytingin verður auglýst formlega á næstu dögum og þá hafa íbúar og aðrir hagsmunaaðilar sex vikur til þess að gera athugasemdir áður en hún verður tekin aftur fyrir á vettvangi sveitarfélagsins.
Fundargerð bæjarstjórnar 2. mars.