Ókeypis molta fyrir bæjarbúa

Garðeigendur geta nú nálgast Moltu án endurgjalds austan gömlu Gróðrarstöðvarinnar við Krókeyri. Moltuna má nota sem jarðvegsbæti og áburð í garða. Hana skal þó ekki nota við matjurtaræktun. Um er að ræða bæði grófsigtaða moltu og svo fínsigtaða, mismunandi hvað hentar.

Rétt er að hafa í huga við notkun moltu að hún er nær því að vera áburður en jarðvegur. Hún er sterk og best að blanda henni við mold, líkt og gert væri við húsdýraáburð. Bein snerting við rætur plantna er ekki æskileg.

Dæmi um notkun moltu:

Á grasflatir
Þunnu lagi er dreift að vori, gott að blanda moltuna með sandi. Þetta er hægt að gera með stórvirkum dreifurum á stærri svæði. Heima í garði er best að nota gamla lagið, fötu og góða vettlinga.

Við trjáplöntun (í stað hrossataðs)
Hér er átt við pottaplöntur. Molta er notuð eins og skítur í holuna og eftir að plantan er klár er settur góður hringur af moltu kringum hana, u.þ.b. 10–15 sm þykkur. Gæta þarf þess samt að hafa vel af moldarlagi við rætur plantnanna.

Við sáningu
Moltunni blandað í efsta lagið til helminga.

Í blóma- og runnabeð
Molta er ágæt til að þekja blóma- og runnabeð u.þ.b. 5–10 sm. Illgresi nær ekki að sá sér í hreina moltu. Þetta hefur meðal annars verið gert í Lystigarðinum með ágætum árangri.

Undir þökur
Efsta lagið er blandað til helminga með moltu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan