Nýr íbúðakjarni að Hafnarstræti vígður í dag

Íbúðarkjarninn er alls 587m².
Íbúðarkjarninn er alls 587m².

Nýr íbúðakjarni að Hafnarstræti 16 verður vígður í dag. Þar munu sex einstaklingar búa, þar af fimm sem hefja nú sjálfstæða búsetu í fyrsta sinn.

Hlynur Már Erlingsson, forstöðumaður búsetuþjónustu fyrir fatlaða, segir húsnæðið hannað með það að markmiði að bæði íbúum og starfsfólki líði sem best. Jafnframt er lögð áhersla á að nýta velferðartækni íbúum og starfsfólki til heilla. „Lögð verður áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu, þannig að hver og einn íbúi fái tækifæri til að nýta sína hæfileika til fulls og blómstra sem virkur þátttakandi í samfélaginu,“ segir Hlynur Már.

Íbúðarkjarninn er alls 587m². Í húsinu eru sex einstaklingsíbúðir auk starfsmannarýmis. Húsið er að hluta byggt á grunni eldri bygginga frá árinu 1993 en ný viðbygging, sem tengir byggingarhlutana saman, hýsir tvær íbúðir og starfsmannaðstöðu.

Ævar Guðmundsson, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ, segir mikið hafa verið lagt í hönnun íbúðanna með áherslu á bjart og notalegt rými og góða ljós- og hljóðvist. „Hluti af efni úr uppgrefti byggingarinnar var nýtt í gerð hljóðmanar sem aðskilur leiksvæði sunnan byggingarinnar frá Drottningarbraut, og í leikhól innan leiksvæðisins sem skapar skemmtilegra umhverfi fyrir notendur svæðisins,“ segir Ævar.

Hönnun hússins var í höndum Form rágjafar ásamt Eflu, Raftákns og Örugg. Um lokafrágang sá Tréverk, aðrir verktakar voru Ljósgjafinn, Norðurlagnir, Blikk og tækniþjónustan, Málningarfélagið og Garður og hönnun, en innréttingar komu frá Húsheild Hyrnu.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan