Frá bæjarstjórnarfundi unga fólksins í Ráðhúsinu í gær.
Í gær var haldinn árlegur bæjarstjórnarfundur unga fólksins þar sem fulltrúar í ungmennaráði ræða málefni sem á þeim brenna að viðstöddum bæjarfulltrúum sem einnig taka til máls um það sem ber á góma.
Mikill samhljómur var á meðal fundarmanna um mikilvægi þess að hlustað sé á raddir unga fólksins og unnið að því að Akureyrarbær verði sveitarfélag þar sem ungt fólk býr og hefur raunveruleg áhrif.
Á dagskrá voru umræður um stöðu og hlutverk ungmennaráðs, skólasálfræðinga og geðheilbrigðismál ungmenna, einelti og ofbeldi, mikilvægi þess að boðið sé upp á næringarríkan og góðan skólamat, samræmdar símareglur í grunnskólum, þarfir nemenda í Hlíðarskóla hvað varðar húsnæði, aðbúnað og útisvæði, hlutverk og opnunartíma félagsmiðstöðva, bættar samgöngur með strætó, ýmislegt varðandi skíðasvæðið í Hlíðarfjalli og öryggismál gangandi vegfarenda í Listagilinu.
Í bæjarstjórn unga fólksins sátu að þessu sinni Leyla Ósk Jónsdóttir fundarstjóri, Aldís Ósk Arnaldsdóttir, Bjarki Orrason, Fríða Björg Tómasdóttir, Heimir Sigurpáll Árnason, Íris Ósk Sverrisdóttir, Lilja Dögun Lúðvíksdóttir, Ólöf Berglind Guðnadóttir, París Anna Bergmann Elvarsdóttir, Rebekka Rut Birgisdóttir og Sigmundur Logi Þórðarson.
Bæjarfulltrúar sem tóku til máls voru Halla Björk Reynisdóttir, Heimir Örn Árnason, Hilda Jana Gísladóttir, Hulda Elma Eysteinsdóttir, Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, Jón Hjaltason, Lára Halldóra Eiríksdóttir og Sunna Hlín Jóhannesdóttir.
Fundargerð ungmennaráðs 25. mars 2025.
Smellið á myndirnar að neðan til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra.