Bæjarstjórnarfundur var haldinn í Hrísey í dag. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2025 var lögð fram á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var í Hrísey í dag. Rekstrarafkoma A- og B-hluta er áætluð jákvæð um 1.414 milljónir króna eftir fjármagnsliði og tekjuskatt. Jafnframt var lögð fram þriggja ára áætlun áranna 2026-2028.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir að áætlunin endurspegli þann mikla kraft sem búi í sveitarfélaginu og að fram undan sé mikil uppbygging á flestum sviðum.
„Hér horfir að mínu mati allt til betri vegar með lægra skuldahlutfalli og sterkum fjárhag Akureyrarbæjar. Það býr mikill slagkraftur í samfélagi okkar sem verður nýttur til að byggja upp félagslega innviði á næstu árum eins og verið hefur,“ segir Ásthildur en skiptingu útgjalda eftir helstu málaflokkum má sjá hér að neðan.
Skatttekjur sveitarfélagsins eru áætlaðar rúmir 20 milljarðar, tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga rúmir 6 milljarðar og aðrar tekjur rúmlega 13 milljarðar króna. Heildartekjur eru áætlaðar um 39,4 milljarðar króna.
Samkvæmt yfirliti um sjóðstreymi samstæðunnar mun veltufé frá rekstri nema 5.651 milljónum króna. Fjárfestingahreyfingar nema samtals 5.862 milljónum en fjármögnunarhreyfingar 678 milljónum. Áætlað er að afborganir langtímalána verði 1.742 milljónir en ný langtímalán eru áætluð 2.500 milljónir króna. Handbært fé sveitarfélagsins í árslok er áætlað 2.663 milljónir króna.
Heildarlaunagreiðslur ásamt launatengdum gjöldum hjá samstæðunni eru áætlaðar 20.715 milljónir. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins, í hlutfalli við rekstrartekjur þess, eru áætluð 52,6%. Annar rekstrarkostnaður er áætlaður 30,2% af rekstrartekjum.
Skatttekjur sveitarfélagsins og tekjur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru áætlaðar um 1,3 milljónir króna á hvern íbúa en tekjur samtals 1,9 milljónir á hvern íbúa. Árið 2024, skv. útkomuspá, eru skatttekjur ásamt tekjum frá Jöfnunarsjóði áætlaðar um 1,2 milljónir á hvern íbúa og heildartekjur um 1,8 milljónir króna.
Áætlað er að eignir sveitarfélagsins í efnahagsreikningi 31.12.2025 verði bókfærðar á 73,6 milljarða en þar af eru veltufjármunir tæplega 7 milljarðar króna. Skuldir sveitarfélagsins með lífeyrisskuldbindingum nema þá samkvæmt efnahagsreikningi 44,3 milljörðum en þar af verða skammtímaskuldir um 6,7 milljarðar króna. Áætlað er að heildareignir á hvern íbúa nemi um 3,5 milljónum króna og heildarskuldir verði um 2,1 milljón króna. Veltufjárhlutfallið er áætlað 1,04 í árslok 2025 en er áætlað 1,09 í árslok 2024. Bókfært eigið fé er áætlað að verði 29,3 milljarðar króna í árslok 2025. Eiginfjárhlutfall í árslok er áætlað að verði 39,7%.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um fjárhagsáætlun á tveimur fundum í sveitarstjórn. Fyrri umræða fór fram í dag, 29. október, en áætlunin verður til síðari umræðu í bæjarstjórn 3. desember nk.
Frumvarp að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2025, samstæðan ásamt A-hluta, málaflokkayfirliti og framkvæmdayfirliti. Auk fjárhagsáætlunarinnar fyrir árið 2025 er birt í frumvarpinu þriggja ára áætlun vegna áranna 2026-2028.(pdf-skjal).
Glærur sem Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs, notaði við kynningu á fjárhagsáætluninni.
Bæjarstjórn og bæjarstjóri í Hrísey fyrr í dag. Fundurinn var haldinn í Hrísey í tilefni þess að um þessar mundir eru 20 ár síðan Akureyrarkaupstaður og Hríseyjarhreppur sameinuðust.