Frá málþinginu í Hríseyjarskóla síðasta mánudag.
Mánudaginn 21. nóvember var haldið í Hríseyjarskóla afar vel sótt málþing um umhverfisvernd og plastmengun í hafi. Málþingið var hluti af Erasmus+ verkefni sem fræðafólk við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og nemendur við Hríseyjarskóla taka þátt í og snýst um að koma á samstarfi á milli eyjaskóla í Evrópu um nýsköpun í menntun sem stuðli að aukinni sjálfbærni í eyjasamfélögum.
Verkefnið felur einnig í sér náið samstarf milli þátttökuskólanna og háskólastofnana, sér í lagi um þróun kennslu- og námsefnis. Verkefnið hófst haustið 2020 og stendur til 2023. Eitt aðalmarkmið þess er að veita nemendum í eyjasamfélögum metnaðarfull námstækifæri með áherslu á virka samfélagsþátttöku og möguleg áhrif á framtíðarsýn um sjálfbærni samfélagsins sem þeir búa í. Rík áhersla er lögð á að nýta þekkingu og reynslu kennara og nemenda þannig að þetta markmið náist.
Málþingið sátu, auk nemenda úr Hríseyjarskóla, fulltrúar frá Háskólanum á Akureyri, Hafró, Sæplasti, Vistorku, SSNE, umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, fræðslu- og lýðheilsusviði, tveir bæjarfulltrúar og starfsmaður barnvæns sveitarfélags. Þátttakendur voru valdir með hliðsjón af snertiflötum við þau verkefni sem krakkarnir vinna að en þau eru plastmengun í hafi og sjálfbær ferðamennska.
Á síðasta vormisseri var unnið að efni um plastmengun í 8 vikur. Sú vinna er enn í gangi og drög að handbók um þetta efni er að finna hér. Eftir áramót verður unnið að verkefni um sjálfbæra ferðamennsku í aðrar 8 vikur. Vorið 2023 er stefnt að því að krakkarnir heimsæki skóla á hollensku eyjunni Vlieland en hollensku krakkarnir heimsóttu Hrísey í maí á þessu ári.
Málþingið hófst á fyrirlestri og kynningu frá HA og nemendum Hríseyjarskóla um verkefnið. Að því loknu var þátttakendum skipt niður í fimm hópa, hver hópur beðinn að ræða þrjár spurningar og í framhaldi kynna niðurstöður. Allir tóku virkan þátt í málþinginu og sköpuðust góðar umræður um viðfangsefnið.
Nánari upplýsingar er að finna á vef verkefnisins.
Hér er einnig umfjöllun á vef Hríseyjarskóla um heimsókn hollenska skólans til Hríseyjar.