Að lokinni undirritun í Lystigarðinum á Akureyri.
Í dag, á Degi íslenskrar náttúru mánudaginn 16. september, undirritaði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri loftslagsyfirlýsingu Festu og Akureyrarbæjar og var fyrirtækjum og stofnunum í bænum boðið að gera slíkt hið sama.
Fulltrúar eftirtalinna fyrirtækja á Akureyri undirrituðu yfirlýsinguna ásamt Akureyrarbæ: Hafnarsamlag Norðurlands, ProMat, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar, Mjólkursamsalan, Vaðlaheiðargöng, Ekill/Ekja, Toyota á Akureyri, Vistorka, Orkusetrið, HGH verk, Icevape, Norðlenska, Menningarfélag Akureyrar, Zenon, Enor, Markaðsstofa Norðurlands, Icelandair Hotels Akureyri og Sjúkrahúsið Á Akureyri.
Loftslagsyfirlýsingin er svohljóðandi:
Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.
Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum.
Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra.
Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að:
- Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
- Minnka myndun úrgangs
- Mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir mikilvægt að sem flest fyrirtæki í bænum leggi lóð sitt á vogarskálarnar. „Akureyrarbær er í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi þegar kemur að því að flokka og endurnýta, og það er markmið okkar að sveitarfélagið verði kolefnishlutlaust á allra næstu árum. Við þurfum öll að leggjast á eitt til þess að svo megi verða. Til að breyta heiminum þurfum við fyrst að breyta okkur sjálfum, margt smátt getur orðið eitthvað risastórt," segir Ásthildur Sturludóttir.
Loftslagsyfirlýsingin var þróuð af Festu og Reykjavíkurborg og var fyrst undirrituð í Höfða árið 2015 af forstjórum yfir eitt hundrað fyrirtækja og stofnana í aðdraganda Parísarráðstefnunnar um loftslagsmál (COP21). Þátttakan var vonum framar, vakti athygli á alþjóðavettvangi og var kynnt á fyrrnefndri ráðstefnu árið 2015. Síðan þá hafa fleiri fyrirtæki bæst í hópinn. Í framhaldi af því að fylgja eftir yfirlýsingunni kom í ljós þörf á samræmdum mælikvörðum til að meta og bera saman árangur í loftslagsmálum. Til að svara þeirri þörf var Loftslagsmælir Festu þróaður og hefur nú verið uppfærður í 2. útgáfu á heimasíðu Festu.