Kallað eftir breytingum á leiðakerfinu

Samráð við börn og ungmenni um almenningssamgöngur á Akureyri varpar ljósi á ýmsar hugmyndir og tillögur að breytingum. Óskir um betra leiðakerfi og tíðari ferðir strætó eru áberandi. Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup benda í sömu átt. Akureyrarbær er að hefja vinnu við endurskoðun leiðakerfisins.

Akureyrarbær hefur undanfarna mánuði leitt reynsluverkefni um aukið íbúasamráð. Þótt metnaður hafi verið lagður í að gera almenningssamgöngur aðgengilegar, til dæmis með gjaldfrjálsum strætó, er vilji til að auka notkun og skoða leiðir til að bæta þjónustu, þar með talið leiðakerfið.

Unga fólkið mikilvægur notendahópur

Í þessu verkefni var ákveðið að leita sérstaklega til nemenda á mið- og elsta stigi grunnskóla og framhaldsskóla og fá fram þeirra sjónarmið, enda er það talinn mikilvægur notendahópur sem getur reynst erfitt að ná til með hefðbundnum íbúafundum eða skoðanakönnunum.

Alls voru haldnir níu samráðsviðburðir í grunnskólum, félagsmiðstöðvum og framhaldsskólum og voru bæði settir saman rýnihópar og lagður fyrir spurningalisti. Hátt í 200 tóku þátt og mátti skynja áhuga meðal þátttakenda og vildu flestir segja skoðun sína á þessari mikilvægu þjónustu.

Umhverfismál, öryggi og þægindi

Í rýnihópum með 5.-7. bekk var mikið rætt um mikilvægi almenningssamgangna til að vernda umhverfið og sporna við loftslagsbreytingum. Auk þess var umræða um öryggismál og komu fram ýmsar hugmyndir að auknum þægindum og afþreyingu (tónlist, sjónvarps- eða upplýsingaskjáir, veitingar og fleira). Þá var einnig rætt um leiðakerfið og stundvísi.

Tíðari ferðir og stundvísi

Meirihluti eldri nemenda sem svöruðu spurningakönnun sögðust nota strætó reglulega og þekkja kerfið. Þrátt fyrir almenna jákvæðni gagnvart þjónustunni vilja býsna margir sjá breytingar, tíðari og fleiri ferðir og meiri þjónustu á kvöldin. Óskir um meiri stundvísi eru einnig áberandi. Flestir sem svöruðu könnuninni sögðust vera tilbúnir að ganga lengra til og frá biðstöð ef það þýddi tíðari ferðir.

Athygli vekur að þátttakendur voru í mörgum tilvikum ekki kunnugir strætó-appinu eða höfðu allavega ekki notað það, en þar er hægt að leita að ferð og fá uppástungur að ferðatilhögun innanbæjar á Akureyri.

Fimmtungur í strætó vikulega

Á svipuðum tíma og samráð var haft við börn og ungmenni var gerð almenn könnun um strætó meðal Akureyringa, en það var hluti af þjónustukönnun Gallup sem um 500 íbúar svöruðu. Um helmingur svarenda sagðist nota strætó og 19% vikulega eða oftar. Ef marka má könnunina er mjög stór hluti, eða 86% svarenda frekar, mjög eða að öllu leyti jákvæður gagnvart strætó.

Spurt var hvað kæmi helst í veg fyrir notkun á strætó og var leiðakerfið þar oftast nefnt. Raunar sögðu 89% svarenda að leiðakerfi, tímasetningar og langur ferðatími komi í veg fyrir að þeir noti strætó.

Næsta skref að endurskoða kerfið

Ljóst er að vel heppnað samráð við börn og ungmenni, til viðbótar við Gallup könnunina, styður við hugmyndir stjórnenda strætó um að leiðakerfið þurfi að endurskoða og hefur skapað góðan grunn til að byggja á fyrirhugaðar breytingar. Næsta skref er að endurskoða þjónustuna og þróa tillögur að nýju leiðakerfi með aðstoð sérfræðinga. Þessar tillögur verða síðan kynntar vel fyrir íbúum og þeim gefinn kostur á að hafa áhrif.

Bæjarráð samþykkti í morgun að stofna starfshóp um endurskoðun leiðakerfisins. Vonast er til að endurskoðunin gangi fljótt og vel, en lykilatriði er að vanda til verka, gera breytingar í víðtækri sátt og að endurbætur á kerfinu taki mið af þörfum sem flestra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan