Mynd: Guðríður Helgadóttir
Sumardaginn fyrsta hlaut Jóhann Thorarensen garðyrkjumaður hvatningarverðlaun garðyrkjunnar við hátíðlega athöfn á Reykjum í Ölfusi. Jóhann hefur lengi haft einlægan áhuga á matjurtaræktun og er upphafsmaður matjurtagarða Akureyrarbæjar sem hafa notið mikilla vinsælda frá því að þeir voru stofnaðir árið 2009. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, veitti verðlaunin á sumarhátíð Landbúnaðarháskólans.
Jóhann hefur unnið hjá Akureyrarbæ síðan 1994 þegar hann hóf starfsnám hjá Ræktunarstöð Akureyrarbæjar við gömlu Gróðrastöðina. Árið 1999 tók hann síðan við verkstjórn hennar og hefur sinnt því starfi síðan.
Upphaf matjurtagarðanna má rekja til þess að í kjölfar fjármálahrunsins 2008 fór Jóhann á fund með þáverandi formanni bæjarráðs Akureyrar og bar upp hugmynd sína um að útbúa litla matjurtagarða fyrir almenning. Vel var tekið í þá hugmynd og strax vorið eftir voru garðarnir auglýstir lausir til umsóknar. Upphaflega var gert ráð fyrir 50-100 görðum en eftirsóknin var svo mikil að fyrsta sumarið voru leigðir út 200 garðar. Árið eftir voru garðarnir orðnir 300. Í dag eru 250 garðar í leigu.
Matjurtagarðar í Danmörku, sem þar kallast kolonihaver, eru helsta fyrirmynd Jóhanns. Framkvæmdin er með þeim hætti að þegar görðunum hefur verið úthlutað fær fólk fræðslu í sáningu og meðferð plantna. Allir ræktendur fá fræ, spíraðar kartöflur og forræktaðar kálplöntur. Jóhann og starfsfólk hans eru til taks alla virka daga og aðstoða eftir þörfum.
Sjá nánari upplýsingar um verðlaunin í frétt RÚV um málið.