Iðjuþjálfar veita ráðgjöf og aðstoða við sjálfstæði

Þórunn og Jóhanna eru með viðtalstíma alla miðvikudaga milli kl. 13 og 14 í Víðilundi 22.
Þórunn og Jóhanna eru með viðtalstíma alla miðvikudaga milli kl. 13 og 14 í Víðilundi 22.

Á Velferðarsviði Akureyrarbæjar starfa iðjuþjálfar sem veita víðtæka ráðgjöf til einstaklinga með ýmiskonar skerðingar á færni vegna aldurs, veikinda eða fötlunar.

Iðjuþjálfarnir fara á heimili skjólstæðinga, gera heimilisathuganir og meta þörf fyrir hjálpartæki og aðlögun á heimilum til að draga úr slysahættu. Þjónustan miðar að því að gera einstaklingum kleift að dvelja lengur heima með viðeigandi aðstoð og velferðartækni. „Við veitum einstaklingum ráðgjöf svo þeir geti haldið sjálfstæði sínu í daglegu lífi og stuðlum þannig að auknum lífsgæðum,“ segja Jóhanna Mjöll Björnsdóttir og Þórunn Sif Héðinsdóttir, iðjuþjálfar hjá Akureyrarbæ.

Hjálpartækin sem sótt er um eru fjölbreytt, allt frá smáhjálpartækjum eins og sokkaífæru, sturtukolli, baðbretti og griptöngum, til stærri tækja eins og hjólastóla og sjúkrarúma. „Við metum þörf hvers og eins, hvort sem um er að ræða göngugrind eða aðlögun á heimilinu. Rétt val á hjálpartækjum er mikilvægt og við leiðbeinum fólki einnig um kaup á hjálpartækjum þegar þau eru ekki í boði í gegnum Sjúkratryggingar Íslands,“ segir Jóhanna Mjöll.

Þau sem telja sig þurfa á ráðgjöf iðjuþjálfa að halda geta sótt um í gegnum Þjónustugátt Akureyrarbæjar. Fyrir frekari upplýsingar má hafa samband við Velferðarsvið í síma 460-1400. Þórunn og Jóhanna eru einnig með skrifstofu í Víðilundi 22 og eru þar með viðtalstíma alla miðvikudaga milli kl. 13 og 14.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan