Plastiðjan Bjarg - Iðjulundur er vinnustaður á vegum Akureyrarbæjar þar sem áherslan er lögð á starfsendurhæfingu, starfsþjálfun og að skapa vinnutækifæri fyrir fólk með skerta starfsgetu af ýmsum ástæðum.
Svanborg Bobba Guðgeirsdóttir forstöðumaður segir frá starfseminni:
Uppistaða verkefna er létt iðnaðarframleiðsla og þjónusta. Framleitt er meðal annars raflagnaefni, kerti, búfjármerki, mjólkursíur, diskaþurrkur, klútar og skilti.
Aðal varan okkar er raflagnaefni sem við steypum sjálf og gerum klárt til sölu en við seljum líka bændum búfjármerki og kúabændum mjólkursíur sem við erum að sauma. Einnig erum við að framleiða kerti, bæði útikerti og handdýfð veislukerti.
Hjá okkur eins og öðrum hefur Covid-19 haft áhrif á starfsemi okkar og við höfum ekki getað gert allt það sem okkur langar til að gera en með skipulagi og sveigjanleika okkar frábæra starfsfólks hefur þetta nú allt saman gengið þó að ýmis verkefni bíði betri tíma.
PBI fékk til dæmis styrk frá Erasmus+ til að kynna sér sambærilegan vinnustað í Portúgal sem er að vinna mikið með uppbrot á vinnustaðnum sínum til að skapa minningar og hafa þannig áhrif á félagsleg gildi og stuðla að góðum starfsanda. Þetta verkefni bíður betri tíma þó undirbúningur sé hafinn á fullu.
Við á PBI leggjum áherslu á að vera í sambandi við aðra svipaða vinnustaði og hefur oft verið gestkvæmt á PBI þó allt sé lokað tímabundið núna. Hingað kom til dæmis hópur frá Berlín vorið 2019 sem vinnur á sambærilegum vinnustað og PBI. Hópurinn stoppaði hluta úr degi, fékk kynningu á starfseminni og tækifæri til að prófa hin ýmsu störf sem í boði eru á PBI. Þetta var í annað sinn sem við fengum heimsókn frá þessum vinnustað.
Við þökkum Svanborgu fyrir að gefa innsýn inn í áhugavert og mikilvægt starf sem unnið er hjá Plastiðjunni Bjargi - Iðjulundi. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu vinnustaðarins.