Heimilt verður að byggja fimm 3 hæða fjölbýlishús við Miðholt 1-9
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að kynna drög að breytingu á aðalskipulagi vegna Holtahverfis skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Breytingin nær til lóðanna við Miðholt 1-9 sem er hluti af ÍB17 og Hlíðarbraut 4 sem er hluti af VÞ17 Holtahverfi norður. Breytingin felur annars vegar í sér að heimilt verði að byggja allt að 3 hæðir auk kjallara á lóðunum við Miðholt og hins vegar að heimild verði fyrir því að byggja íbúðir á efri hæðum við Hlíðarbraut 4 þannig að verslun og þjónusta verði áfram á neðstu hæðum en þar fyrir ofan yrði heimilt að byggja íbúðir.
Skipulagslýsinguna má nálgast hér og skipulagsuppdráttinn hér.
Hér má svo nálgast frekari upplýsingar um fyrirhugaða deiliskipulagsbreytingu á lóðunum við Miðholt 1-9.
Til að koma til móts við athugasemdir sem bárust við skipulagslýsinguna varðandi aukna umferð um Miðholt er nú gert ráð fyrir því að inn- og útkeyrsla bílakjallara húsanna verði frá Langholti og einnig er gert ráð fyrir sambærilegri kvöð um trjágróður innan lóðar og er í deiliskipulagi Móahverfis.
Íbúar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að kynna sér breytinguna og senda inn ábendingar í gegnum skipulagsgátt eða bréfleiðis til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrarbæjar, Geislagötu 9.
Frestur til að gera athugasemdir við breytinguna er til og með 5. mars 2025.