Kirkjutröppurnar og gangstétt í Listagilinu

Framkvæmdir við kirkjutröppurnar eru hafnar að nýju eftir talsvert hlé og er búið að byggja yfir neðsta hluta trappanna, en þar er verið að vinna í húsnæði sem er undir tröppunum. Að því loknu verður hægt að hefja vinnu við sjálfar kirkjutröppurnar, þeirri vinnu hefur seinkað m.a. sökum þess að erfiðlega gekk að fá verktaka í verkefnið og það var umfangsmeira en var ráð fyrir gert.
Umhverfis- og mannvirkjaráð leggur áherslu á að um er að ræða mikilvæga framkvæmd sem verður sannkölluð bæjarprýði, mikilvægt er að vandað sé til verka og tekið sé tillit til ráðlegginga fagfólks, þrátt fyrir að það þýði tafir á verklokum fram til loka júlí.

Einnig eru framkvæmdir hafnar við síðasta áfanga í Listagilinu (Kaupvangsgili). Það er verkefni sem hófst árið 2020 en áfanginn sem framundan er felst í endurgerð gangstéttarinnar frá Kaupvangstorgi (við verslunina Eymundsson) og upp að Ketilhúsi norðanmegin í gilinu. Stefnt er að því að ljúka þessum síðasta verkþætti fyrir 17. júní næstkomandi. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá framkvæmdarsvæðið. Núverandi framkvæmdir í Kaupvangsgili eru sýndar með bláa rammanum og sá rauði sýnir þar sem byrjað er. Græna svæðið er sjálft Kaupvangstorgið þar sem framkvæmdum lauk 2023.

Áður hafði verið lokið við að laga gangstéttina upp gilið að sunnanverðu. Gott er því að beina gestum og gangandi að ganga upp gilið að sunnan á meðan framkvæmdum stendur og eins verður hægt að fara um stíginn fyrir neðan Sigurhæðir og upp á Eyrarlandsveg um leið og versta bleytan er farin af skógarstígnum. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan