Valgerður H. Bjarnadóttir sem fékk viðurkenningu frístundarráðs fyrir einstaklings framlag til jafnréttismála. Mynd: Almar Alfreðsson
Á Vorkomu stjórnar Akureyrarstofu á sumardaginn fyrsta var tilkynnt um jafnréttisviðurkenningar Akureyrarbæjar auk fleiri viðurkenninga. Árlega er veitt viðurkenning þeirri stofnun, fyrirtæki, nefnd eða ráði Akureyrarbæjar, einstaklingi eða félagi sem hefur að mati frístundaráðs staðið sig best við framgang jafnréttismála á Akureyri, að undangenginni auglýsingu eftir tilnefningum.
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar veitti að þessu sinni fjórar jafnréttisviðurkenningar fyrir framlag til jafnréttismála á Akureyri. Viðurkenningarnar hlutu Akureyrarakademían, Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna og Valgerður H. Bjarnadóttir.
Akureyrarakademían hlaut viðurkenningu fyrir námskeiðið Konur upp á dekk! Hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál sem haldið var á Akureyri í fyrra. Markmið þess var fyrst og fremst að auka hlut kvenna í bæjarstjórnarkosningunum sem fram fóru í maí 2018. Ásamt Akureyrarakademíunni komu Jafnréttisstofa og JCI Sproti að fræðslunni.
Zontaklúbbarnir tveir á Akureyri (Zontaklúbbur Akureyrar og Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna) hlutu viðurkenningu fyrir ötult starf í þágu jafnréttismála á Akureyri. Zontaklúbbarnir hafa í fleiri ár staðið fyrir fjölsóttum hádegisverðarfundi þann 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, skipulagt ljósagöngu í upphafi 16 daga átaks og allt starf klúbbanna tekur mið af málsvarahlutverki þeirra, að berjast fyrir og standa vörð um hag og réttindi kvenna með jafnrétti að leiðarljósi.
Valgerður H. Bjarnadóttir er sá einstaklingur sem hlaut jafnréttisviðurkenningu frístundaráðs. Hún hefur í gegnum sinn starfsferil komið mikið að jafnréttismálum. Hún stýrði íslenska hluta norræna jafnréttisverkefnisins Brjótum múrana frá 1985-1990. Var fyrsti jafnréttis- og fræðslufulltrúi Akureyrar og lét af því embætti 1995. Valgerður hefur um áratuga skeið starfað að málefnum kvenna og jafnrétti kynjanna á ýmsum vettvangi . Í því sambandi hefur hún lagt áherslu á að þróa óhefðbundnar aðferðir í fullorðinsfræðslu, með sérstakri áherslu á námsnálgun kvenna og sjálfsstyrkingu. „En þó hefur drifkrafturinn minn í þessu starfi frá upphafi verið sú vissa að við verðum að auka jafnvægi hinna svokölluðu kvenlægu og karllægu gilda.." sagði Valgerður við tilefnið. Valgerður hefur látið gott af sér leiða fyrir samfélagið í mörg ár með virkri þátttöku og þrautseigju.