Ferðalagi Jonnu lýkur á Glerártorgi

Jonna setti upp sýningar á 48 stöðum, þar sem hver sýning stóð yfir í viku. Mynd: Axel Darri
Jonna setti upp sýningar á 48 stöðum, þar sem hver sýning stóð yfir í viku. Mynd: Axel Darri

Sýningu Jonnu Jónborg Sigurðardóttur, bæjarlistamanns Akureyrar 2024, Ferðalag, er nú lokið en undanfarnar vikur hefur Jonna ferðast um bæinn með sex töskur.

Jonna setti upp sýningar á 48 stöðum, þar sem hver sýning stóð yfir í viku. Meðal annars voru sýningar á stofnunum bæjarins, snyrtistofum, skólum, verkstæði, kirkju, fasteignasölu, gleraugnaverslun, ísbúð, veitingastöðum, íþróttamannvirkjum og apóteki. „Þetta gekk mjög vel og aðeins fjórum sinnum fékk ég synjun. Annarsstaðar var vel tekið á móti mér, auk þess sem sumir höfðu samband og báðu um tösku. Ég var ekki búin að ákveða staðsetningu fyrir verkin en kom við á þeim stöðum sem mér fannst spennandi þegar ég keyrði um bæinn. Þetta var heilmikil vinna – bæði að búa til verkin, smíða fætur undir töskurnar og keyra þær um bæinn. Ég hélt að ég væri góður smiður en hef komist að því að ég er það ekki,“ segir Jonna og hlær.

Jonna segir að töskurnar hafi komið vel undan sýningunni. „Það hefur verið eitthvað smá sem ég hef þurft að gera við, en annars hafa þær fengið að vera í friði að mestu leyti,“ segir hún og bætir við að hún hafi valið hverja tösku fyrir hvern stað. „Til dæmis fór ég með verkið Hinn sokkurinn hans Guðmundar á Vitann en verkið er unnið úr stökum sokkum. Sama verk fór einnig til Eimskipafélagsins en verkið er í gamalli tösku merkt Eimskipafélaginu. Margir, sérstaklega útlendingar, tengdu þetta gamla merki við nasistamerkið og voru hissa að þetta mætti. Ég skil hvað þeir meina en það var aldrei slík hugsun að baki,“ segir Jonna og brosir.

Verkið Frú Elísabet setti Jonna meðal annars upp í anddyri Ráðhússins. „Frú Elísabet var unnið úr gömlum sokkabuxum sem eldri kona frá Seltjarnarnesi gaf mér. Hún hafði mikið fyrir því að finna mig til að athuga hvort ég vildi eiga þessar sokkabuxur sem hún hafði safnað í mörg ár. Ég sagði bara já takk og fékk sendan fullan skókassa af sokkabuxum sem ég tók með mér til Ítalíu þar sem ég vann þetta verk. Þegar það var tilbúið sendi ég henni mynd en fékk ekkert svar. Síðar komst ég að því að hún hefði látist eftir stutta baráttu við veikindi.“

Sýningin Ferðlag var bæjarlistamannaverkefni Jonnu. „Hingað til hefur fólk aðallega þekkt mig fyrir svöngu ruslaverurnar. Eins og þær eru þessi verk öll unnin úr endurvinnsluefni. Það er mér mikill heiður að hafa verið valin bæjarlistamaður. Þetta er viðurkenning á allri þeirri vinnu sem ég hef lagt í listina. Nú er þessu ferðalagi lokið og mér tókst að koma listinni til fólksins, því þótt ég hafi sett tösku upp í anddyri Listasafnsins eru margir sem koma aðeins inn á Ketilkaffi en fara ekki upp á safnið. Það er svo fallegt við þetta.“

Frá 15. apríl að Sumardeginum fyrsta munu töskurnar vera til sýnis á Glerártorgi. „Ég vildi enda þar frekar en í hefðbundnum myndlistarsal því verkefnið gengur út á að koma listinni til fólksins – þeirra sem borga launin mín.“

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan