Ertu á aldrinum 16-20 ára? Viltu eignast vini á hinum Norðurlöndunum?

Norrænt vinabæjamót ungmenna verður haldið í Västerås í Svíþjóð í sumar, nánar tiltekið dagana 26.-30. júní. Á mótinu verður unnið í spennandi vinnuhópum að lifandi verkefnum en grunnþema mótsins eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um frið, réttlæti og baráttu gegn misrétti. Ungmenninum á aldrinum 16-20 ára sem búsett eru á Akureyri stendur til boða að taka þátt í mótinu.

Þátttakendur þurfa að vera tilbúnir til að kynna Akureyri og vera góðir fulltrúar bæjarins, taka virkan þátt í verkefnum og vera tilbúnir að kynnast og tengjast ungu fólki frá hinum vinabæjunum í áfengis- og vímuefnalausu umhverfi. 

Ferðadagar verða 25. júní og 1. júlí. Kostnaður þátttakenda er 25.000 fyrir ferðir til og frá Akureyri og þeir greiða sjálfir fyrir mat á ferðalaginu. Öll þátttaka í mótinu sjálfu þar með talinn matur og gisting, er þátttakendum að kostnaðarlausu. Gert er ráð fyrir að 17 ungmenni komist að.

Vinabæir Akureyrar sem einnig senda þátttakendur á mótið eru ásamt Västerås, Ålesund í Noregi, Randers í Danmörku og Lahti í Finnlandi.

Skráning fer fram í þjónustugátt Akureyrarbæjar á www.akureyri.is og nánari upplýsingar veitir Steinunn Alda Gunnarsdóttir hjá félagsmiðstöðvum Akureyrarbæjar. Netfang steinunn.alda.gunnarsdottir@akureyri.is eða í síma 460 1239.

Skráningarfrestur er til miðvikudagsins 2. apríl 2024.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan