Í könnuninni kemur fram að 94,6% foreldra á Akureyri eru ánægðir með leikskóla barna sinna.
Leikskólar á Akureyri koma vel út úr foreldrakönnun leikskólanna, Skólapúlsinum.
Í könnuninni kemur fram að 94,6% foreldra á Akureyri eru ánægðir með leikskóla barna sinna, sem er jákvæð breyting upp á 1,2 prósentustig frá fyrra ári. Leikskólar sveitarfélagsins eru í 13. sæti af þeim 32 sveitarfélögum sem tóku þátt. Mesta ánægjan mælist hjá foreldrum yngstu barnanna, 1-3 ára, en 97,7% foreldra barna á þeim aldri á Akureyri eru ánægð með leikskólann sinn.
Foreldrar barna í leikskólum á Akureyri eru einnig mjög ánægðir með stjórnun leikskólanna, þar sem jákvæð breyting mældist um 3,9% frá fyrra ári. Alls sögðust 97,5% foreldra leikskólabarna á Akureyri vera ánægðir með stjórnun leikskólans, samanborið við 93,6% á landsvísu. Sveitarfélagið lendir þar í 7. sæti af 32.
Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 1. febrúar til 1. mars 2024 af Vísar rannsóknir ehf. Svarhlutfall var 83,1%.