Covid-19 smit á Akureyri

Á leiðinni í skólann. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Á leiðinni í skólann. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra voru 116 manns á Akureyri í einangrun með Covid-19 smit klukkan 8 í morgun. Fólki í sóttkví hefur fækkað um á að giska 240 á milli daga.

Eftir því sem næst verður komist eru nú 62 nemendur og 9 starfsmenn í grunnskólum bæjarins í einangrun með Covid-19 og samtals eru 883 nemendur og starfsmenn í sóttkví. Staðan er mun betri í leikskólunum þar sem aðeins eitt barn er nú í einangrun en 43 börn og starfsmenn í sóttkví. Samtals hafa 55 nemendur og starfsmenn leik- og grunnskólum bæjarins verið skráðir í smitgát.

Því má ljóst vera að drjúgur meirihluti Covid-19 smita á Akureyri tengist grunnskólastarfi en smitin hafa einnig náð að breiðast nokkuð út til annarra hópa í samfélaginu.

Tölur um smit breytast dag frá degi en vonir standa til að með ströngum sóttvarnaraðgerðum og öflugri smitrakningu takist að hefta útbreiðslu þeirra á allra næstu dögum, fækkun fólks sem er í sóttkví bendir enda til þess.

Hver og einn skóli sér um að halda foreldrum og aðstandendum nemenda vel upplýstum um stöðu mála og hið sama gildir um allt íþrótta- og tómstundastarf í bænum; upplýsingar berast beint frá íþróttafélögum til iðkenda og foreldra eða aðstandenda þeirra.

Mikilvægt er að fólk fari strax í skimun finni það fyrir einkennum. Upplýsingar um einkenni og skráningu í sýnatöku er að finna á Covid.is þar sem má einnig lesa um hvað felst í einangrunsóttkví og smitgát. Á Facebook-síðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra eru reglulega birtar tölur um smit í landshlutanum eftir póstnúmerum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan