Í þessari viku var byrjað að reisa veggi á efri hæðinni. Ljósmynd: Andrea Sif Hilmarsdóttir.
Framkvæmdir við nýja leikskólann Klappir við Glerárskóla ganga samkvæmt áætlun. Unnið er hörðum höndum að því að loka húsinu á næstu vikum svo hægt verði að nota háveturinn í innivinnu.
Búið er að steypa veggi á neðri hæð og í þessari viku var platan á efri hæðinni steypt og er byrjað að reisa veggi. Nýtt bílaplan sem nýtist leikskólanum, Glerárskóla og annarri starfsemi á svæðinu var malbikað í síðustu viku og verður lokið við frágang á því í tengslum við lokafrágang í vor.
Leikskólinn Klappir verður alls um 1.450 fermetrar á tveimur hæðum, með tengingu við grunnskólann og íþróttamiðstöð. Þetta verður sjö deilda leikskóli með 144 rýmum, þar af ungbarnadeild og er fyrirhugað að bjóða börnum leikskólavist við 12 mánaða aldur.
Verklegar framkvæmdir voru boðnar út í heild sinni í byrjun þessa árs og er verkið í höndum Byggingarfélagsins Hyrnu. Fyrsta skóflustunga var tekin í apríl og hafa undanfarnir mánuðir verið nýttir vel. Stefnt er að verklokum í ágúst 2021.
Áætlaður kostnaður við byggingu leikskólans er um einn milljarður króna.
Hér eru nokkrar nýlegar myndir af framkvæmdasvæðinu: