Akureyrarvaka, afmælishátíð Akureyrar, verður haldin helgina 30. ágúst - 1. september nk.
Hátíðin hefst formlega með Rökkurró í Lystigarðinum kl. 20.30 á föstudagskvöldið þar sem boðið verður upp á ýmis tónlistaratriði, dans og rómantíska stemningu í upplýstum garðinum fram eftir kvöldi.
Í þéttskipaðri dagskrá helgarinnar má einnig finna Draugaslóð á Hamarkotstúni, tónleikaröðina Mysing í portinu á bak við Listasafnið, götukörfuboltamót í Garðinum hans Gústa, Pálínuboð í Fálkafelli, Víkingahátíð á MA-túninu, Acra jóga fjör, Skáta- og slökkviliðsviðburð, Taekwondo sýningu og Fornbílasýningu í Listagilinu.
Líf og fjör verður í Menningarhúsinu Hofi alla helgina og má til að mynda nefna dansviðburði sumarlistamanns Akureyrar, Leikhúslög barnanna í boði Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Sönghópinn Ómar og hina einu sönnu Unu Torfa auk þess sem Ljóðajazz fer fram á sunnudagskvöldinu í Hofi en þar koma saman íslenski rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson og danska tónskáldið Dorthe Höjland.
Hápunktur Akureyrarvöku eru vafalaust stórtónleikarnir á Ráðhústorgi á laugardagskvöldinu þar sem norðlenska hljómsveitin Skandall, Skítamórall, Una Torfa, Emmsjé Gauti og sjálfur Bubbi Morthens halda uppi fjörinu. Kynnir kvöldsins er leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir.
Þetta er aðeins brot af rúmlega 70 fjölbreyttum viðburðum dagskrá Akureyrarvöku 2024 og er afmælisgestum bent á að skoða dagskrána í heild sinni á akureyrarvaka.is.
Akureyrarvaka 2024 er haldin af Akureyrarbæ en aðalbakhjarlar eru Dekkjahöllin, Landsbankinn, HS kerfi, Íslandsbanki og Centrum Hotel.
Til hamingju með afmælið Akureyri og gleðilega hátíð!