Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Í dag var tilkynnt á Vorkomu Akureyrarstofu um val á bæjarlistamanni Akureyrar 2018-2019 og varð myndlistakonan Björg Eiríksdóttir þess heiðurs aðnjótandi. Hún á að baki breiða menntun á sviði fagurlista, hugvísinda og menntavísinda frá Myndlistaskólanum á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.
Frá árinu 2003 hefur Björg haldið átta einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga, mestmegnis á Akureyri en einnig í Reykjavík og í Noregi, samhliða kennslu myndlistargreina. Í verkum sínum hefur hún fengist við mannlega tilvist, líkama og innra líf, og einnig oft við mynstur. Verkin hefur hún unnið í ýmsa miðla, s.s. málverk, þrykk, útsaum, ljósmyndir og vídeó, allt eftir hugmyndinni hverju sinni. Sjálf lýsir hún kjarna verka sinna sem birtingu á nálægð og tíma og vísar í því sambandi til orða Maurice Merleau-Pontys listheimspekings: „Ef við leyfum okkur, getum við hrifist af umhverfi okkar á djúpan hátt beint í gegnum skynjunina. Þar býr ákveðin merking og við þurfum ekki að hafa hugsað upp hugtök til að verða hennar vör." Á starfslaunatímanum mun Björg einbeita sér að nýrri einkasýningu sem hún hefur þróað í dágóðan tíma og á rætur að rekja til meistaraprófsrannsóknar hennar, þar sem fjallað var um samskipti manna við umhverfið sitt í gegnum skynjun líkamans.
Einnig var veitt viðurkenning úr Húsverndarsjóði fyrir Aðalstræti 4, Gamla apótekið. Þeir Þorsteinn Bergsson og Þröstur Ólafsson tóku við viðurkenningum fyrir hönd eigenda og Minjaverndar. Húsið þykir ein merkasta bygging Akureyrar frá 19. öld og hefur einstakt varðveislugildi vegna byggingarlistar, menningarsögu og staðsetningar. Það var friðað samkvæmt Þjóðminjalögum árið 2006 og er nú friðlýst í hæsta verndarflokki samkvæmt núgildandi Minjalögum. Að ráðast í viðgerðir og endurbyggingu á Gamla apótekinu var gríðarstórt og flókið verkefni sem verður seint metið að verðleikum og er enn ein skrautfjöðurin í hatt Minjaverndar þegar kemur að því að gera við gömul og varðveisluverð hús á landinu. Allur umbúnaður Gamla apóteksins, hið ytra og innra, ber vott um þekkingu, brennandi áhuga og ekki síst virðingu fyrir viðfangsefninu. Það er í engu tilsparað og afraksturinn er að húsið hefur nú endurheimt stöðu sína sem eitt glæsilegasta hús Akureyrarbæjar og er mikil bæjarprýði. Núverandi eigendur eru Sigríður Sigurjónsdóttir og Halldór Lárusson en í Gamla apótekinu á Akureyri er nú boðið upp á gistingu með áherslu á bóklestur. Í húsinu er gott bókasafn, gufubað, heitur pottur og útisturta en engin sjónvörp. Þar er úrval listmuna eftir íslenska myndlistarmenn og hönnuði. Í húsinu geta gist 8-12 manns.
Þá voru veitt byggingarlistarverðlaun og féllu þau í hlut Jóns Geirs Ágústssonar arkitekts fyrir þann hluta ævistarfs hans sem snýr að Akureyri en hann teiknaði mörg hús og af ólíkum toga, allt frá sumarbúðum til iðnaðarbygginga. Nefna má sem dæmi um hús sem Jón Geir hefur teiknað Hamragerði 21 og 23, sem hann hannaði fyrir fjölskyldu sína og tengdaforeldra, Álfabyggð 2, Ásabyggð 10, Áshlíð 2, 4 og 6 og raðhúsaþyrpingu við Vallargerði og Grundargerði. Jón Geir hannaði opinberar byggingar sem starfsmaður Akureyrarbæjar, þar á meðal fyrstu áfanga öldrunarheimilisins við Austurbyggð og Iðnskólann við Þingvallastræti sem er í dag Icelandair hótel. Einnig má nefna Linduhúsið sem er ákveðið kennileiti á Oddeyri.
Formaður frístundaráðs, Silja Dögg Baldursdóttir veitti tvær jafnréttisviðurkenningar fyrir framlag til jafnréttismála á Akureyri. Viðurkenningarnar hlutu Öldrunarheimili Akureyrar og Andrea Sigrún Hjálmsdóttir.
Akureyrarstofa veitir að auki heiðursviðurkenningu Menningarsjóðs og er hún veitt einstaklingum sem hafa með framlagi sínu stutt við og auðgað menningarlíf bæjarins. Í ár voru tveir einstaklingar fyrir valinu. Birgir Sveinbjörnsson fyrir framlag sitt til miðlunar sögu og menningar á Íslandi öllu og Rósa Kristín Júlíusdóttir fyrir mikilsvert og óeigingjarnt framlag til myndlistar og myndlistarkennslu á Akureyri.
Menningarfélag Akureyrar býður bæjarlistamanni ár hvert að nýta sér Menningarhúsið Hof eða Samkomuhúsið sem vettvang fyrir sýningu eða annars konar uppákomu í lok starfsársins.
Tónlistaratriði á Vorkomunni voru í höndum Alexanders Kristjánssonar Edelstein píanóleikara sem flutti falleg lög eftir Bach og Chopin. Einnig fluttu Harpa Björk Birgisdóttir og Dagur Halldórsson Vor í Vaglaskógi og Ég vitja þín æska en þar fengu þau aðstoð frá Birgi Sveinbjörnssyni heiðursviðurkenningarhafa og föður Hörpu Bjarkar.
Meðfylgjandi mynd var tekin í Hofi í dag. Aftari röð frá vinstri: Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, Silja Dögg Baldursdóttir formaður frístundaráðs, Jón Geir Ágústsson, Þröstur Ólafsson, Þorsteinn Bergsson, Andrea Hjálmsdóttir og Unnar Jónsson formaður stjórnar Akureyrarstofu. Fremri röð frá vinstri: Birgir Sveinbjörnsson, Björg Eiríksdóttir og Rósa Kristín Júlíusdóttir.