Evrópska samgönguvikan stendur nú sem hæst og á sunnudaginn er komið að bíllausa deginum.
Á sunnudaginn er því enn meiri ástæða til að ganga, hjóla eða notfæra sér þann einstaka munað sem Akureyringar búa við, nefnilega að í bænum er frítt í strætó, auk þess sem það verður frítt í landsbyggðarstrætó í tilefni dagsins.
Á sunnudaginn verður einnig viðburðurinn Hjólafjör - fjölskyldudagur í Kjarnaskógi á vegum Akureyrarbæjar og Hjólreiðafélags Akureyrar. Viðburðurinn hefst klukkan 14 og eru gestir hvattir til að koma hjólandi í skóginn. Hist verður við leikvöllinn sunnan við strandblakvellina, völundarhúsið og ærslabelginn og þaðan verður hjólað saman um nokkra stíga í skóginum með fólk frá hjólreiðafélaginu í broddi fylkingar. Þessi hjólatúr hentar öllum, ungum sem öldnum. Að hjólafjöri loknu verður boðið upp á grillaðar pylsur og safa meðan birgðir endast.
Frá árinu 2002 hafa borg og bæjarfélög á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu til að ýta undir sjálfbærar samgöngur. Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem eru allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.