Bíladagar hefjast á fimmtudaginn

Fulltrúar frá Akureyrarbæ, Aflinu, Bílaklúbbi Akureyrar, Berginu Headspace, lögreglu, slökkviliði, Kvennaathvarfi Akureyrar og tjaldsvæðinu að Hömrum funduðu nýverið um Bíladaga 2024 sem hefjast fimmtudaginn 13. júní og lýkur formlega mánudaginn 17. júní með bílasýningu í Boganum.

Vart hefur orðið við glannaakstur á Bíladögum fyrri ára en slíkur akstur er ólöglegur og samræmist engan veginn siðareglum Bíladaga sem höfuðáhersla verður lögð á sem fyrr að allir virði. Hart verður tekið á þeim brotum sem kunna að koma upp og gildir þá einu hvort brotin eiga sér stað utan eða innan aksturssvæðis BA.

Stjórnendur Bíladaga standa fyrir öflugri gæslu á tjaldsvæði Bíladaga og á viðburðum hátíðarinnar. Bætt verður verulega í löggæsluna þessa helgi og verða lögreglumenn á vakt bæði á merktum og ómerktum bílum. Starfsmenn umhverfismiðstöðvar eru langt komnir með að setja upp hraðahindranir víða um bæinn til að koma í veg fyrir spól og háskalegan hraðakstur sem er að sjálfsögðu bannaður.

Þjónusta verður ólík eftir tjaldsvæðum þessa daga. Tjaldsvæði Bílaklúbbsins verður opnað miðvikudaginn 12. júní kl. 18 og er opið til þriðjudagsins 18. júní. 18 ára aldurstakmark er inn á tjaldsvæði Bíladaga og er svæðið opið öllum gestum Bíladaga en ekki aðeins þeim sem keypt hafa passa á alla viðburði Bíladaga. Fjölskyldutjaldsvæðið að Hömrum er opið um bíladaga líkt og alla daga ársins. Tjaldsvæðið að Hömrum er fyrst og fremst ætlað fjölskyldum og aðgangi stýrt inn á svæðið miðað við það. Aukin gæsla verður þessa helgi og gerðar eru ríkar kröfur til tjaldgesta um að næði sé virt á svæðinu svo bæði börn og fullorðnir geti notið dvalarinnar. 18 ára aldurstakmark er inn á tjaldsvæðið á Hömrum og yngri einstaklingum sem ekki verða í fylgd með foreldrum eða forráðamönnum verður vísað frá. Það dugar ekki að vera í fylgd með einhverjum sem er eldri en átján ára. Fjölskyldutjaldsvæðið við Hrafnagil verður lokað fyrir 30 ára og yngri frá miðvikudeginum 12. júní til mánudagsins 17. júní. Þá verður hliðvarsla og ströng gæsla til að stjórna aðgengi að svæðinu.

Dagskrá Bíladaga er eftirfarandi:*

13. júní: Brekkusprettur (Hillclimb) keppni hefst 19:00

(Brekkursprettur er aksturskeppni sem gengur út á akstur á lokaðri leið þar sem keppt er um hver fer á sem stystum tíma frá ráslínu til endamarks. Aðeins eitt ökutæki er á akstursleið hverju sinni. Eitt af skilyrðunum er að vera í bíl sem er búinn öryggisbúri fyrir ökumann).

14. júní: Auto-x keppni hefst kl. 9:30

14. júní: Drift Keppni hefst kl. 13

14. júní: Bílalimbó keppni hefst kl. 21

15. júní: Götuspyrna keppni hefst kl. 13

15. júní: Hávaðakeppni (2step)hefst kl. 20

16. júní: Sandspyrna keppni hefst kl. 13

16. júní: Burn-out keppni hefst kl. 20.30

17. júní: Bílasýning í Boganum kl. 10-18

*Birt með fyrirvara um breytingar

Nánari upplýsingar um Bíladaga er að finna HÉR

Siðareglur Bíladaga:

  • Við göngum (keyrum) vel um bæinn okkar, jafnt gestir sem heimamenn.
  • Virðum hámarkshraða í íbúðarhverfum sem og á vegum úti.
  • Við spólum einungis á akstursíþróttasvæði Bílaklúbbs Akureyrar.
  • Gestir Bíladaga eru jákvæðir og þar af leiðandi þrælskemmtilegir.
  • Við berum virðingu fyrir náunganum og tökum höndum saman um að gera Bíladaga frábæra.
  • Gestir Bíladaga ganga snyrtilega um umhverfi sitt.
Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan