Barnamenningarhátíð sett með Söngvavori í Hofi

Bekkurinn var þéttsetinn og stemningin gríðarleg þegar Barnamenningarhátíð á Akureyri var sett í Hofi í fyrradag með svokölluðu Söngvavori.

Söngvavor er samstarfsverkefni leik- og tónlistarskóla þar sem söngur, tónlistararfur, hljóðfæraleikur og samsköpun barna er nýttur inn í alla þætti kennslunnar í leikskólastarfi með áherslu á sköpun, málskilning og orðaforða. Nemendur í tónlistarskóla vinna með elstu börnum leikskóla sem lýkur með sameiginlegum lokatónleikum. Verkefnið veitir fimm ára börnum jöfn tækifæri til að efla færni sína í gegnum tónlist og söng í þverfaglegu starfi innan leikskólans í samstarfi við nemendur tónlistarskólanna. Yfirskrift verkefnisins í ár var Leikur að orðum.

Eitt tónskáld er tekið fyrir hverju sinni og að þessu sinni var það Bragi Valdimar Skúlason sem gerði lög og texta en Haraldur Vignir Sveinbjörnsson sá um útsetningu fyrir ungmennin. Nemendur tónlistarskólanna fá tækifæri til að vinna saman í hljómsveit við að spila lögin og leikskólabörnin læra texta og lög sem eru nýtt þvert inn í nám þeirra í leikskólanum. Allt með það að markmiði að efla orðaforða, málskilning, skapandi vinnu og að kynnast menningararfi okkar.

Verkefnið byggir á áralangri samvinnu Tónskóla Sigursveins og nokkurra leikskóla í Reykjavík þar sem sönglög sótt í tónlistararf okkar eru nýtt til að efla tónlistarþátttöku elstu barna leikskólanna um leið og þau kynnast tónlistararfi sínum, tengjast börnum í tónlistarnámi og efla eigin málskilning, orðaforða og í gegnum skapandi leik og starf. Samstarfið teygir nú anga sína út fyrir höfuðborgina og meðal annars hingað til Akureyrar.

Allar upplýsingar um Barnamenningarhátíð á Akureyri og viðburðadagatal er að finna hér.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan