Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum á þriðjudag nýja samþykkt fyrir bifreiðastæðasjóð Akureyrarbæjar sem og drög að gjaldskrá fyrir gjaldskyld bílastæði, bílastæðakort íbúa og bílastæðakort á fastleigusvæðum.
Bæjarráð samþykkti fyrr á þessu ári að taka upp gjaldskyldu á bílastæðum í miðbænum. „Markmiðin eru að bæta lífsgæði og skapa tækifæri fyrir fjölbreyttari notkun bæjarlands með því að stýra betur eftirspurn eftir bílastæðum, draga úr umferð, umferðartöfum, útblæstri og hljóðmengun,“ segir Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs bæjarins.
Einnig eiga breytingarnar að auka umferðaröryggi fyrir aðra vegfarendur en þá sem eru á bíl með því að draga úr fjölda þeirra sem aka um og leita að lausum stæðum, svo og að styðja við verslun og fyrirtæki með því að auðvelda viðskiptavinum og öðrum að finna bílastæði. Þá eru breytingarnar í samræmi við samstarfssáttmála bæjarstjórnar, sem liður í að stefna að sjálfbærum rekstri bæjarins.
Tvö ný gjaldsvæði - um 600 gjaldfrjáls stæði
Tekin verða í notkun tvö gjaldsvæði þar sem í dag eru gjaldfrjáls klukkustæði og hefst gjaldtaka eftir áramót. Gjaldið er 200 kr. á klst. á gjaldsvæði 1 og 100 kr. á klst. á gjaldsvæði 2 (sjá mynd). „Svo eru 21 stæði fyrir hreyfihamlaða, 19 svokölluð græn stæði og svo eru þar til viðbótar um 600 gjaldfrjáls bílastæði í kringum miðbæinn, til dæmis norður við íþróttavöll, niður með Strandgötu og Hofi, suður við leikhús og svo framvegis,“ segir Andri.
Gjald fyrir bílastæðakort íbúa verður 6.000 kr. á ári og gjald fyrir bílastæðakort á fastleigusvæðum verður 12.000 kr. á mánuði á gjaldsvæði 1 og 6.000 kr. á mánuði fyrir gjaldsvæði 2.
Fylgst vel með notkun bílastæða
Gjaldskyldutíminn tekur að mestu mið af núverandi gildistíma klukkustæða og verðið á að stuðla að því að bílastæðanýting sé um 85%, sem samsvarar því að ávallt verði eitt til tvö laus stæði í hverjum götulegg/svæði. Stefnt er að því að safna reglulega gögnum um notkun og beita þeim til að ákvarða gjaldskrá og stýra eftirspurn. Sama stefna var tekin upp hjá Reykjavíkurborg 2019 en almennt hefur sambærileg stefna um stýringu bílastæða verið útfærð víða erlendis.
Hugbúnaðarlausn verður notuð við innheimtu gjalda þannig að fólk geti greitt í símanum, en einnig verða settir upp greiðslustaurar. Nánari upplýsingar og leiðbeiningar verða auglýstar þegar nær dregur.
Verkefnahópur sem var skipaður starfsfólki bæjarins, ásamt sérfræðingi frá EFLU, kortlagði nýtingu bílastæða og undirbjó þessar breytingar. Smelltu hér til að skoða greinargerð verkefnahópsins.
Hér er hægt að skoða samþykkt fyrir bifreiðasjóð og hér er hægt að skoða gjaldskrána.