Aldís Kara ásamt foreldrum Brynjars Inga sem tóku við verðlaunum fyrir hans hönd í gær.
Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason úr KA er íþróttakarl Akureyrar árið 2021 og skautakonan Aldís Kara Bergsdóttir úr SA er íþróttakona Akureyrar 2021. Í öðru sæti voru þau Jóhann Gunnar Finnsson fimleikamaður úr FIMAK og Rut Arnfjörð Jónsdóttir handboltakona úr KA/Þór. Í þriðja sæti voru Baldvin Þór Magnússon frjálsíþróttamaður úr UFA og Arna Sif Ásgrímsdóttir knattspyrnukona úr Þór/KA.
Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2021 var lýst á verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi í gær, 3.febrúar. 12 aðildarfélög ÍBA tilnefndu alls 32 íþróttamenn úr sínum röðum, 15 íþróttakonur og 17 íþróttakarla. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.
Á athöfninni veitti frístundaráð Akureyrarbæjar viðurkenningar til 10 aðildarfélaga ÍBA vegna 310 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 10 afreksefnum styrki. Samtals hlutu 20 einstaklingar afreksstyrki fyrir samtals rúmar 5 milljónir á athöfninni í gær.
Aldís Kara er íþróttakona Akureyrar þriðja árið í röð. Aldís Kara, sem var valin skautakona ársins 2021 hjá Skautasambandi Íslands og íþróttakona Skautafélags Akureyrar setti Íslandsmet í janúar 2021 þegar hún hlaut 123.44 stig á RIG21. Í haust keppti Aldís á tveimur ISU Challenger Series mótum. Með góðum árangri á þessum mótum vann Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum, fyrst íslenskra skautara. Á Evrópumeistaramótinu, sem fór fram í Eistlandi í janúar 2022 hafnaði Aldís Kara í 34. sæti. Aldís Kara lauk árinu 2021 með því að slá eigið Íslandsmet á Íslandsmeistaramótinu sem haldið var í nóvember. Þar hlaut hún 136.14 stig sem er jafnframt hæstu stig sem gefin hafa verið í Senior flokki á Íslandi.
Brynjar Ingi er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta skipti. Brynjar Ingi er uppalinn knattspyrnumaður úr KA og var valinn, annað árið í röð, Íþróttakarl KA í byrjun árs. Brynjar Ingi spilaði 11 leiki fyrir KA sem hafnaði í 4. sæti í efstu deild karla 2021. Frammistaða Brynjars Inga vakti mikla athygli og í júlí var Brynjar Ingi keyptur til Lecce í ítölsku B-deildinni. Með framgöngu sinni vann Brynjar Ingi sér inn fast sæti í A-landsliði karla á árinu, þar sem hann spilaði 10 A-landsleiki á árinu 2021 og skoraði tvö mörk. Í lok árs 2021 færði Brynjar Ingi sig um set, frá Ítalíu til norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga
Á athöfninni var afhent heiðursviðurkenning fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar fyrir vel unnin störf í þágu íþrótta á Akureyri. Rúnar Þór Björnsson hlaut heiðursviðurkenningu í ár fyrir áratuga starf í þágu íþrótta innan Siglingaklúbbsins Nökkva og bogfimideildar Akurs.
Þetta er í 43. sinn sem íþróttamaður Akureyrar er kjörinn en það var fyrst gert árið 1979. Alls hafa 26 einstaklingar hlotið þetta sæmdarheiti, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum alls.
Íþróttamenn Akureyrar 1979-2021:
1979 Gunnar Gíslason, handknattleikur og knattspyrna
1980 Haraldur Ólafsson, lyftingar
1981 Haraldur Ólafsson, lyftingar
1982 Nanna Leifsdóttir, skíði
1983 Nanna Leifsdóttir, skíði
1984 Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1985 Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1986 Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1987 Halldór Ómar Áskelsson, knattspyrna
1988 Guðrún H. Kristjánsdóttir, skíði
1989 Þorvaldur Örlygsson, knattspyrna
1990 Valdemar Valdemarsson, skíði
1991 Rut Sverrisdóttir, sund
1992 Freyr Gauti Sigmundsson, júdó
1993 Vernharð Þorleifsson, júdó
1994 Vernharð Þorleifsson, júdó
1995 Vernharð Þorleifsson, júdó
1996 Vernharð Þorleifsson, júdó
1997 Ómar Halldórsson, golf
1998 Vernharð Þorleifsson, júdó
1999 Vernharð Þorleifsson, júdó
2000 Ingvar Karl Hermannsson, golf
2001 Vernharð Þorleifsson, júdó
2002 Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2003 Andreas Stelmokas, handknattleikur
2004 Rut Sigurðardóttir, Tae Kwon Do
2005 Guðlaugur Már Halldórsson, akstursíþróttir
2006 Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2007 Dagný Linda Kristjánsdóttir, skíði
2008 Rakel Hönnudóttir, fótbolti
2009 Bryndís Rún Hansen, sund
2010 Bryndís Rún Hansen, sund
2011 Bryndís Rún Hansen, sund
2012 Arna Sif Ásgrímsdóttir, knattspyrna
2013 Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2014 Hafdís Sigurðardóttir, frjálsar íþróttir
2015 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2016 Bryndís Rún Hansen, sund
2017 Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleikur
2017 Stephany Mayor, knattspyrna
2018 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2018 Hulda B. Waage, kraflyftingar
2019 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2019 Aldís Kara Bergsdóttir listhlaup
2020 Viktor Samúelsson, kraftlyftingar
2020 Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup
2021 Brynjar Ingi Bjarnason, knattspyrna
2021 Aldís Kara Bergsdóttir, listhlaup