Akureyringar heimsóttu Færeyinga

Akureyringar og Þórshafnarbúar fyrir utan Ráðhúsið í Þórshöfn. Fremst standa frá vinstri: Gunvør, Ei…
Akureyringar og Þórshafnarbúar fyrir utan Ráðhúsið í Þórshöfn. Fremst standa frá vinstri: Gunvør, Eiríkur Björn og Annika.

Dagana 1.-5. febrúar heimsóttu fulltrúar frá Akureyrarbæ Þórshöfn höfuðborg Færeyja.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri, Sigfús Karlsson úr stjórn Akureyrarstofu og Þórgnýr Dýrfjörð deildarstjóri Akureyrarstofu fengu kynningu m.a. á rekstri og uppbyggingu mennta- og menningarmála, ferðamálum, starfi hafnarinnar í Þórshöfn og rædd voru málefni sem þessi tvö sveitarfélög eiga sameiginleg.

Fundað var m.a. með Anniku Olsen borgarstjóra Þórshafnar, Gunvør Balle varaborgarstjóra og fulltrúum frá Hafnarsamlagi Færeyja. Einnig var rætt við Pétur Thorsteinsson aðalræðismann Íslands í Færeyjum og Sif Gunnarsdóttur sem er framkvæmdastjóri Norðurlandahússins.

Þessa helgi átti sér stað stórviðburður í menningarlífi þessara tveggja þjóða en þá fóru fram tónleikar í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit Færeyja tóku höndum saman í flutningi þriggja verka og voru kórar frá báðum sveitarfélögum þeim til fulltingis. Tónleikarnir þóttu takast ákaflega vel og er nú þegar búið að leggja grunn að enn frekara samstarfi tónlistarfólksins. Má vænta tónlistarheimsóknar frá Færeyjum til Akureyrar á næsta ári.

Sama dag og tónleikarnir fóru fram var einnig opnuð sýning í Norðurlandahúsinu á verkum tveggja fyrrum bæjarlistamanna á Akureyri. Þetta er sýningin SuperBlack þar sem Margrét Jónsdóttir og Kristín Gunnlaugsdóttir sýna verk sín en sýningin var upphaflega opnuð í Kaupmannahöfn en er nú komin til Færeyja.

Heimsóknin frá Akureyri vakti umtalsverða athygli og sjá hér frétt um hana á vef ríkisútvarpsins í Færeyjum.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan