Ráðstefnunni var streymt í beinni útsendingu á ruv.is.
Akureyrarbær var á meðal þeirra fyrirtækja og opinberu aðila sem hlutu viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA árið 2020 en tilkynnt var um viðurkenningarhafa í gær.
Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt í gær stafrænu ráðstefnuna Jafnrétti er ákvörðun, sem streymt var í beinni útsendingu á vefsíðu RÚV. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2019 hlutu 18 þátttakendur viðurkenningu, en í ár voru viðurkenningarhafar 44.
Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til 30 fyrirtækja, 5 sveitarfélaga og 9 opinberra aðila úr hópi þeirra 116 aðila sem hafa undirritað viljayfirlýsingu og tóku þátt í könnun um aðgerðir sem gripið hefur verið til. Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við matið. Stór hluti þeirra þátttakenda sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar haustið 2019 hafa náð góðum árangri á þessu sviði og fjölgaði þeim fyrirtækjum sem hafa náð markmiðunum um rúmlega helming á milli ára. Auk þess vekja þátttakendur í Jafnvægisvoginni athygli á jafnréttismálum innan sinna fyrirtækja með ýmsum öðrum hætti.
Þau sveitarfélög sem hlutu viðurkenninguna voru auk Akureyrarbæjar, Múlaþing, Ísafjarðarbær, Reykjanesbær og Sveitarfélagið Ölfus.