Skýringarmynd
Akureyrarbær hefur hafið vinnu við breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030. Breytingin nær til reitsins VÞ13, sem liggur á svæðinu milli Naustahverfis og Hagahverfis, og felur í sér að svæðið verði skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði með heimild fyrir íbúðum á hluta svæðisins. Heimilt verður að byggja fimm hæðir og bílgeymslu þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttri verslunar- og þjónustustarfsemi á jarðhæðum en búseta er heimil á efri hæðum.
Aðalskipulagsuppdráttinn má nálgast hér
Samhliða auglýsingu á aðalskipulagsbreytingu er auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Naustahverfis 3. áfanga Hagahverfis skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga 123/2010.
Deiliskipulagstillagan nær til lóðarinnar Naustagötu 13 sem afmarkast af Davíðshaga í suðri, Kjarnagötu í vestri, Naustagötu í norðri og af göngustíg milli Haga- og Naustahverfis í austri. Lóðin er 4.568 m². Byggingarreitur lóðarinnar er tvískiptur og má bygging á vesturhluta lóðarinnar vera 5 hæðir + kjallari en bygging á austurhlið 2 hæðir + kjallari.
Markmið deiliskipulagsins er að auka nýtingarhlutfall lóðarinnar sem er vel staðsett milli Haga- og Naustahverfis og ber aukið byggingarmagn vel. Önnur markmið deiliskipulagsins eru þessi:
- leyfa byggingu íbúða á efri hæðum hússins
- að gera fólki í nærumhverfi kleift að sækja sér verslun og þjónustu gangandi og minnka vægi bílsins
- að styrkja rekstrargrundvöll verslunar og þjónustu á lóðinni
Deiliskipulagsuppdrátt má nálgast hér
Athugasemdum þar sem nafn og kennitala kemur fram má skila til skipulagssviðs í Ráðhúsi Akureyrar, Geislagötu 9 eða í gegnum Skipulagsgátt: aðalskipulagsbreyting og deiliskipulagsbreyting
Frestur til að senda inn ábendingar er til og með 20. mars 2025.