Málsnúmer 2012030099Vakta málsnúmer
Haraldur Þór Egilsson forstöðumaður Minjasafnsins á Akureyri mætti á fundinn og fór yfir rekstur safnsins og starfsemi. Þá leiddi hann stutta umræðu um framtíðarsýn í safnamálum á Eyjafjarðarsvæðinu. Fram kom að ný safnalög taka gildi um næstu áramót og í því sambandi benti Haraldur á mikilvægi þess að sameining og samvinna safna verði styrkt sérstaklega þegar að því kemur að útdeila opinberum fjármunum til þeirra. Þá nefndi hann þá hugmynd að Akureyri gerist tilraunasveitarfélag í nýjum leiðum og aðferðum í skipulagi safnamála.
Stjórnin þakkar Haraldi fyrir afar fróðlega yfirferð og gagnlega umræðu um framtíðarsýn í safnamálum. Stjórnin tekur undir það sjónarmið að sameiningar og samstarf safna verði styrkt sérstaklega. Þá felur stjórnin framkvæmdastjóra Akureyrarstofu að koma hugmynd Haraldar um tilraunaverkefni á framfæri, í samstarfi við hann.