Stjórn Akureyrarstofu

113. fundur 25. janúar 2012 kl. 16:00 - 18:40 Fundarherbergi Akureyrarstofu í menningarhúsinu Hofi
Nefndarmenn
  • Halla Björk Reynisdóttir formaður
  • Jón Hjaltason
  • Sigmundur Einar Ófeigsson
  • Guðrún Þórsdóttir
  • Helena Þuríður Karlsdóttir
  • Matthías Rögnvaldsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Þórgnýr Dýrfjörð fundarritari
Dagskrá

1.Starfsáætlun stjórnar Akureyrarstofu 2011-2014

Málsnúmer 2011010071Vakta málsnúmer

Unnið að endurskoðun starfsáætlunar stjórnar Akureyrarstofu með hliðsjón af fjárhagsáætlun. Farið yfir leiðarljós og markmið í ferðamálum, atvinnumálum, markaðsmálum og menningarmálum. Vinnu verður haldið áfram á næsta fundi stjórnarinnar.

2.Sinfóníuhljómsveit Norðurlands - samningur um starfsemi 2012-2014

Málsnúmer 2011120063Vakta málsnúmer

Farið aftur yfir drög að samningi milli SN og Akureyrarbæjar. Markmið samningsins er að styðja við uppbyggingu Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sem meginstoðar sígildrar tónlistar utan höfuðborgarsvæðisins og að stuðla að því að Akureyri verði þungamiðja öflugs menningarstarfs á landsbyggðinni með möguleikum til aukinnar atvinnumennsku á listasviði. Áfram verður lögð áhersla á skapandi starf með börnum á starfssvæði hljómsveitarinnar með það að markmiði að þeim fjölgi sífellt sem líta á tilvist hljómsveitarinnar og tónlistarinnar sem hún flytur sem sjálfsagðan hluta af daglegu lífi.

Stjórn Akureyrastofu samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og felur framkvæmdastjóra að ganga frá honum í samræmi við umræður á fundinum og vísar honum til afgreiðslu í bæjarráði.

3.Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Akureyri 2012

Málsnúmer 2012010328Vakta málsnúmer

Rætt um aðkomu Akureyrarstofu að Atvinnu- og nýsköpunarhelginni sem haldin verður öðru sinni á Akureyri dagana 24.- 26. febrúar nk. Akureyrarstofa er beinn þátttakandi í skipulagningu helgarinnar að þessu sinni og gert ráð fyrir að hún leggi til fjárframlag, ásamt fjölda annarra aðila, til að standa straum af kostnaði. Atvinnu- og nýsköpunarhelgin var haldin í fyrsta sinn á Akureyri í fyrra að frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja í bænum og tókst firna vel. Hún hefur svo í kjölfarið orðið fyrirmynd samskonar verkefna víðs vegar um landið en Innovit hefur annast framkvæmd þeirra.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að veita allt að einni milljón króna til Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar og skulu fjármunirnir nýttir til að fylgja lífvænlegum verkefnum vel eftir að helginni lokinni.

4.Heimasíða Akureyrarbæjar www.akureyri.is - viðurkenning

Málsnúmer 2012010329Vakta málsnúmer

Á dögunum voru kynntar niðurstöður á úttekt á opinberum vefjum ríkis og sveitarfélaga og hlaut Akureyri viðurkenningu fyrir að eiga besta sveitarfélagavefinn, www.akureyri.is.
Í umsögn dómnefndar um vef Akureyrarbæjar segir að aðgengi upplýsinga sé til fyrirmyndar. Forsíða gefi gott yfirlit um innihald hans og uppsetning sé skýr og skilmerkileg. Leitarniðurstöður séu sérlega skipulega framsettar. Vefurinn sé vel tengdur við aðra starfsemi í bænum sem auki gildi hans verulega. Þá segir að útlitshönnun vefsins sé nýstárleg, stílhrein, skipulögð og einstaklega falleg. Samspil mynda og efnisflokks sé mjög vel unnið. Viðmót vefsins sé hlýlegt og þægilegt.
Stjórn Akureyrarstofu óskar bæjarbúum, ritsjórn vefsins, starfsmönnum Akureyrarstofu og Stefnu hugbúnaðarhúss til hamingju með hinn nýja og glæsilega vef og vel unnið verk.

Fundi slitið - kl. 18:40.