Málsnúmer 2010090145Vakta málsnúmer
Fyrir fundinn var lögð tillaga að fjárhagsáætlun fræðslu- og uppeldismála fyrir fjárhagsárið 2011. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir því að rekstarkostnaðurinn verði kr. 4.205.190.000 sem er kr. 8.891.000 hærra en rammi gerir ráð fyrir. Reikna verður með því að meiri hagræðing náist á árinu 2012 þar sem sumar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til koma ekki að fullu inn fyrr en á því fjárhagsári. Gert er ráð fyrir því í áætluninni að kr. 20.000.000 sem eru umfram ramma í húsaleigu verði bættar, kr. 7.000.000 vegna fjölgunar leikskólarýma verði bætt í ramma og þá er gert ráð fyrir því að kr. 19.500.000 verði fluttar til búsetudeildar vegna reksturs Árholts og að kr. 6.000.000 verði fluttar úr ramma til málaflokks 102, ferliþjónusta til að mæta kostnaði við akstur fatlaðra barna í grunnskólum.
Gjaldskrá leikskóla er leiðrétt þannig að dvalartími í leikskóla verði kr. 2.536 á mánuði sem þýðir að 8 klst. á dag kosta á mánuði kr. 20.288 og fullt fæði verði kr. 6.515 á mánuði. Með þessari breytingu verður hlutur foreldra í rekstri leikskólanna 17,5% af rekstrarkostnaði í stað 15,8% áður. Breyting á gjaldskrá fæðis tekur mið af breytingu á vísitölu matarverðs sl. 12 mánuði. Þá er gjaldskrá Tónlistarskólans leiðrétt um 10% þar sem annar rekstrarkostnaður hækkar mikið en skólagjöld eru hugsuð til að mæta öðrum kostnaði en launum kennara og stjórnenda.
Gripið verður til ýmissa aðgerða til að lækka kostnað við rekstur leik- og grunnskóla s.s. að minnka stjórnun í grunnskólum, lækka kostnað vegna kennslu og annarra starfa í grunnskólum, minnka afleysingu í leikskólum með því að breyta fyrirkomulagi og leita leiða til að minnka kostnað við mötuneyti leikskóla með fækkun mötuneytanna. Þessar aðgerðir beinast fyrst og fremst að því að lækka launakostnað enda hefur annar kostnaður verði lækkaður mikið. Aðgerðirnar eru þó hugsaðar þannig að verið er að leita leiða til að breyta fyrirkomulagi og minnka þannig kostnað.
Skólanefnd samþykkir framkomna tillögu að fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 samhljóða og vísar henni til bæjarráðs.
Skólanefnd samþykkir tillögu að nýrri gjaldskrá leikskóla en þar er gert ráð fyrir því að foreldrar sem báðir eru atvinnulausir greiði lægra gjaldið sem einstæðir foreldrar og foreldrar sem báðir eru í námi greiða.
Þá samþykkir skólanefnd tillögu að nýrri gjaldskrá Tónlistarskólans.
Skólanefnd samþykkir að boða til kynningarfundar um fjárhagsáætlun 2011 með foreldraráðum leikskóla og fulltrúum starfsmanna annars vegar og hins vegar með skólaráðum grunnskólanna.