Skólanefnd

23. fundur 11. október 2010 kl. 14:00 - 16:50 Fundarsalur á 2. hæð í Glerárgötu 26
Nefndarmenn
  • Sigurveig S. Bergsteinsdóttir formaður
  • Preben Jón Pétursson
  • Sigrún Björk Sigurðardóttir
  • Helgi Vilberg Hermannsson
  • Sædís Gunnarsdóttir
Starfsmenn
  • Hrafnhildur Sigurðardóttir
  • Gunnar Gíslason fræðslustjóri ritaði fundargerð
Dagskrá

1.Daggæsla - niðurstöður könnunar

Málsnúmer 2010090023Vakta málsnúmer

Á fundinn mætti Trausti Þorsteinsson lektor við HA og gerði grein fyrir niðurstöðum könnunar meðal foreldra um þjónustu dagforeldra sem gerð var sl. vor. Foreldrum 171 barns var boðið að taka þátt í könnuninni. 124 svöruðu spurningalista eða 74,5%.
Helstu niðurstöður eru:
Almennt segjast foreldrar ánægðir með þjónustu dagforeldris. Það sem sérstaka ánægju vekur meðal foreldra er framkoma dagforeldris, hvernig tekið er á móti barninu að morgni svo og samskipti dagforeldris við foreldra og upplýsingamiðlun.
Mun algengara er nú að foreldrar sæki upplýsingar um dagforeldri til skóladeildar eða á vefsíðu Akureyrarbæjar en fram kom í sambærilegri könnun árið 2009. Rétt um helmingur foreldra segjast hafa sótt upplýsingar á þessa staði og flestir telja upplýsingarnar ítarlegar.
Viðmót og persónuleiki dagforeldris virðist ráða mestu við val foreldra á daggæslu fyrir börn sín.
Flestir foreldrar kanna hvort dagforeldri hafi gilt starfsleyfi, gera skriflegan samning og halda eftir afriti af honum.
Foreldrar segja að dagforeldri leiðbeini sér og kynni reglur og samþykktir er lúta að daggæslu í heimahúsi. Fleiri foreldrar nú sækja þessar upplýsingar á heimasíðu Akureyrarbæjar en árið 2009.
Nánast allir foreldrar er þátt tóku í könnuninni telja að líðan barns þess í daggæslu sé mjög góð og almennt virðast foreldrar vera ánægðir með það fæði sem börnunum stendur til boða.
Þótt flestir foreldrar segist sammála þeirri fullyrðingu að forföll dagforeldris séu ekki íþyngjandi fyrir þá má lesa úr niðurstöðum að vandi getur skapast hjá foreldrum þessa vegna.
Lítill hópur foreldra kvartar yfir vistunartíma hjá dagforeldrum og vill að hann sé samræmdur við opnunartíma leikskóla bæjarins.
Niðurstöðurnar í heild má nálgast á heimasíðu skóladeildar skoladeild.akureyri.is

Skólanefnd þakkar Trausta Þorsteinssyni fyrir kynninguna og lýsir ánægju sinni með almenna ánægju foreldra með þjónustu dagforeldra á Akureyri.

2.Dagforeldrar - endurskoðun á samningi

Málsnúmer 2010090024Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð tillaga að breytingu á samningi skóladeildar við dagforeldra. Breytingin felur það í sér að nú er launatrygging virk frá og með 1. ágúst ár hvert til 1. júlí næsta árs, en getur aðeins varað í 3 mánuði lengst. Launatrygging er háð því að frá dagforeldi fari barn í leikskóla og ekki tekst að finna annað barn í plássið sem losnar.

Skólanefnd samþykkir tillöguna samhljóða fyrir sitt leyti.

3.Grímsey - skólaganga nemenda í 9. og 10. bekk

Málsnúmer 2010080095Vakta málsnúmer

Fyrir fundinn var lögð tillaga að reglum um styrki til foreldra í Grímsey vegna viðbótarkostnaðar við skólagöngu nemenda í 9. og 10. bekkjum, en þá bekki verða nemendur að sækja í grunnskólana á Akureyri. Fyrir liggur að hverfisráð Grímseyjar og skólaráð Grímseyjarskóla hafa sent inn umsögn og gera ekki athugasemdir við fyrirliggjandi tillögu. Tillagan gerir m.a. ráð fyrir því að greiddur verði framfærslustyrkur sem skiptist þannig að greiddar eru 1.070 kr. dag hvern yfir skólárið vegna húsnæðis og kr. 1.930 hvern dag sem nemandi dvelur utan heimilis, vegna uppihalds og umönnunar. Þessar upphæðir taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs án húsnæðis.

Skólanefnd samþykkir tillöguna samhljóða fyrir sitt leyti.

4.Forvarnastefna - endurskoðun

Málsnúmer 2007090104Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 8. september 2010 samþykkti samfélags- og mannréttindaráð að óska eftir tilnefningu frá skóladeild í vinnuhóp vegna endurskoðunar á forvarnastefnu. Stefnt er að því að endurskoðuninni verði lokið fyrir næstu áramót.

Skólanefnd tilnefnir í vinnuhópinn Þuríði Sigurðardóttur verkefnisstjóra á skóladeild og Sædísi Gunnarsdóttur varamann í skólanefnd.

5.Fjárhagsáætlun 2011 - skóladeild

Málsnúmer 2010090145Vakta málsnúmer

Tekin fyrir tillaga að fjárhagsáætlun fræðslu- og uppeldismála fyrir árið 2011 til fyrri umræðu. Tillagan felur í sér um 100 milljóna króna hagræðingu í rekstri og er áætlað að heildarrekstrarkostnaður málaflokksins verði kr. 4.212.903.000 á árinu.

Fundi slitið - kl. 16:50.