Skipulagsráð

343. fundur 09. september 2020 kl. 08:00 - 11:40 Fundarsalur á 1. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Orri Kristjánsson
  • Ólöf Inga Andrésdóttir
  • Arnfríður Kjartansdóttir
  • Þórhallur Jónsson
  • Þorvaldur Helgi Sigurpálsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
  • Margrét Mazmanian Róbertsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála
  • Stefanía G Sigmundsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Pétur Ingi Haraldsson sviðsstjóri skipulagssviðs
Dagskrá
Þorvaldur Helgi Sigurpálsson M-lista mætti í forföllum Helga Sveinbjörns Jóhannssonar.

1.Mannréttindastefna 2020-2023

Málsnúmer 2019030417Vakta málsnúmer

Bryndís Elfa Valdemarsdóttir verkefnastjóri og jafnréttisráðgjafi kynnti nýja mannréttindastefnu Akureyrarbæjar.
Skipulagsráð þakkar Bryndísi Elfu fyrir kynninguna.

2.Oddeyri - breyting á aðalskipulagi 2018-2030

Málsnúmer 2019090318Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju að lokinni kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar sem felur í sér breytingu á hluta athafnasvæði á Oddeyri í íbúðarsvæði. Þá eru einnig lagðar fram athugasemdir og umsagnir sem bárust á kynningartíma.

Afgreiðslu málsins var frestað á fundi ráðsins 10. júní sl. og síðan þá hefur verið fundað með fulltrúum hverfisnefndar Oddeyrar, eigendum mannvirkja á skipulagssvæðinu og þróunaraðila.
Meirihluti skipulagsráðs leggur til við bæjarstjórn að aðalskipulagsbreytingin verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Arnfríður Kjartansdóttir V-lista greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað að hæpið sé að ganga gegn óskum fjölmargra bæjarbúa um að byggja ekki háhýsi á umræddum byggingareit. Gildandi aðalskipulag sem kveður á um lágreista byggð var unnið í mjög miklu samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila í bænum. Í athugasemd frá hverfisnefnd Oddeyrar er vakin athygli á að byggðin syðst á Oddeyrinni er lágreist en hækkar eftir því sem norðar dregur. Ísavia bendir á að há íbúðarhús á þessum stað gætu dregið úr notkunargildi flugvallarins. Minjastofnun bendir á að það sé ekki einungis Gránufélagshúsið sem er friðað, heldur þurfi líka að taka tillit til hússins í hönnun nágrennis þess. Og nokkrar ábendingar almennra borgara vara við að endurtaka mistök borga og bæja um allan heim sem hafa byggt háhýsi við sjóinn og síðan uppgötvað ýmsa ókosti við það. Það á einnig eftir að koma í ljós, ef af háhýsabyggingum verður, hver á að bera kostnað af því að fá núverandi landeigendur burt af svæðinu.

Tryggvi Már Ingvarsson B-lista, Orri Kristjánsson S-lista, Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista, Þórhallur Jónsson D-lista og Þorvaldur Helgi Sigurpálsson M-lista ítreka bókun meirihluta skipulagsráðs frá fundi 22. apríl sl.

Þá hefur einnig verið komið til móts við athugasemdir um hæð bygginga með því að takmarka hæð þeirra við 25 metra yfir sjávarmáli.

3.Matthíasarhagi 2-4-6 - umsókn um breytt skipulag

Málsnúmer 2020090066Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. september 2020 þar sem Haraldur S. Árnason fyrir hönd Bergfestu ehf., kt. 610515-0370, sækir um að breyta skipulagi fyrir lóðir nr. 2, 4 og 6 við Matthíasarhaga úr einbýlishúslóðum í lóðir undir tvö lítil fjölbýlishús.
Skipulagsráð hafnar því að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi erindi.

4.Matthíasarhagi 8-10-12 - umsókn um breytt skipulag

Málsnúmer 2020090065Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. september 2020 þar sem Haraldur S. Árnason fyrir hönd Bergfestu ehf., kt. 610515-0370, sækir um að breyta skipulagi fyrir lóðir 8, 10 og 12 við Matthíasarhaga úr einbýlishúsalóðum í lóðir undir tvö lítil fjölbýli.
Skipulagsráð hafnar því að breyta deiliskipulagi í samræmi við fyrirliggjandi erindi.

5.Móasíða 1 - beiðni um grenndarkynningu á byggingaráformum

Málsnúmer 2020020705Vakta málsnúmer

Lögð fram að nýju að lokinni grenndarkynningu skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða íbúðarhús á lóðinni Móasíðu 1. Var umsóknin grenndarkynnt með bréfi dagsettu 25. júní 2020 með fresti til að gera athugasemdir til 23. júlí. Átta athugasemdabréf bárust á kynningartíma. Þá liggur einnig fyrir greinargerð umsækjenda dagsett 2. september 2020. Afgreiðslu málsins var frestað á fundi skipulagsráðs þann 12. ágúst sl. Auk ofangreindra gagna er nú lagt fram samþykki eigenda íbúða við Móasíðu 1 og tillaga sviðsstjóra skipulagssviðs að umsögn um efni innkominna athugasemda.
Skipulagsráð frestar afgreiðslu og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við umsækjendur um framhald málsins.

6.Norðurgata 26 - fyrirspurn vegna bílgeymslu

Málsnúmer 2020090114Vakta málsnúmer

Fyrirspurn dagsett 3. september 2020 þar sem Friðbjörn Helgi Jónsson fyrir hönd F húss ehf., kt. 681009-1080, leggur inn fyrirspurn varðandi byggingu bílskýlis við hús nr. 26 við Norðurgötu.
Skipulagsráð gerir ekki athugasemd við byggingu bílskýlis með fyrirvara um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða þar sem framkvæmdin er á lóðamörkum.

7.Grímseyjargata 2 - umsókn um frest

Málsnúmer 2018010274Vakta málsnúmer

Tölvupóstur dagsettur 25. ágúst 2020 þar sem Einar Guðmundsson fyrir hönd Búvíss ehf., kt. 590106-1270, sækir um framkvæmdafrest fyrir lóðina Grímseyjargötu 2. Röksemdir í póstinum.
Skipulagsráð frestar erindinu og felur sviðsstjóra skipulagssviðs að ræða við umsækjanda.

8.Kjarnagata 61 - umsókn um frest

Málsnúmer 2019110295Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 26. ágúst 2020 þar sem Sigurður Björgvin fyrir hönd BB bygginga ehf., kt. 550501-2280, sækir um framkvæmdafrest á lóðinni nr. 61 við Kjarnagötu til 1. júní 2021. Meðfylgjandi er rökstuðningur í bréfi.
Skipulagsráð samþykkir að veita framkvæmdafrest í samræmi við fyrirliggjandi erindi.

9.Drottningarbraut, Hafnarstræti - umsókn um framkvæmdarleyfi fyrir lögnum

Málsnúmer 2020080816Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 25. ágúst 2020 þar sem Arnaldur B. Magnússon fyrir hönd Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um framkvæmdarleyfi fyrir lagningu hitaveitu-, vatnsveitu- og rafmagnsheimtaugar að nýju húsnæði Nökkva við Drottningarbraut. Meðfylgjandi eru skýringarmyndir.
Skipulagsráð samþykkir að veita framkvæmdarleyfi í samræmi við erindið. Framkvæmdin er ekki metin svo umfangsmikil að þörf sé á samningi milli Akureyrarbæjar og umsækjanda um útgáfu leyfisins.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdarleyfisins:

Framkvæmdin skal vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

10.Tangabryggja - umsókn um framkvæmdarleyfi fyrir lögnum

Málsnúmer 2020080909Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 27. ágúst 2020 þar sem Helgi Már Pálsson hjá Eflu fyrir hönd Norðurorku ehf., kt. 550978-0169, sækir um framkvæmdarleyfi fyrir lagningu lagna vegna framkvæmdar á og vestan við Tangabryggju og við Sjávargötu - Gránufélagsgötu. Verkið felur í sér bæði endurnýjun og nýlagningu vatns-, hita- og raflagna.
Skipulagsráð samþykkir að veita framvæmdarleyfi í samræmi við erindið. Framkvæmdin er ekki metin svo umfangsmikil að þörf sé á samningi milli Akureyrarbæjar og umsækjanda um útgáfu leyfisins.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsráð fyrir veitingu framkvæmdarleyfisins:

- Framkvæmdin skal vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

- Hafa þarf samráð við umhverfis- og mannvirkjasvið Akureyrar varðandi frágang á götum, gangstéttum og grænum svæðum.

11.Umferðaröryggi við Kjarnagötu - erindi frá íbúa

Málsnúmer 2020080374Vakta málsnúmer

Lögð fram umsögn samráðsfundar skipulagssviðs og umhverfis- og mannvirkjasviðs um erindi Guðmundar Otta Einarssonar dagsett 13. ágúst 2020 varðandi umferðarhraða í Kjarnagötu. Kemur þar fram að farið verði í mælingar á umferð á nokkrum stöðum og í framhaldinu verði metið hvort að gera þurfi úrbætur. Þá er gert ráð fyrir að farið verði í að útbúa gangbraut við Heiðartún auk þess að bæta merkingar í götunni.
Skipulagsráð tekur undir niðurstöðu samráðsfundar um að útbúin verði gangbraut við Heiðartún og að merkingar um hámarkshraða verði bættar. Gert er ráð fyrir að málið verði tekið til umfjöllunar að nýju þegar niðurstöður hraðamælinga liggja fyrir.

12.Umferðarumbætur við Álfabyggð

Málsnúmer 2019100219Vakta málsnúmer

Lögð fram umsögn samráðsfundar skipulagssviðs og umhverfis- og mannvirkjasviðs um ábendingar íbúa við Álfabyggð en fyrir liggja niðurstöður umferðarmælinga við götuna. Fram kemur að ekki er talin þörf að fara í beinar aðgerðir gegn hraða á svæðinu þar sem mælingar sýna að meðalhraði er innan marka. Þá er ekki talið æskilegt að setja biðskyldu við götur á svæðinu þar sem hægri réttur á þátt í að lækka umferðarhraða
Skipulagsráð tekur undir umsögn samráðsfundar en felur sviðsstjóra skipulagssviðs í samvinnu við yfirstjórn dvalarheimilisins Hlíðar að kynna betur aðkomu að sunnanverðu ásamt því að fara yfir bílastæðamál stofnunarinnar með það að markmiði að minnka umferð í nærliggjandi íbúðargötum.

13.Nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri

Málsnúmer 2018100200Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulagssviðs fór yfir stöðu mála varðandi uppbyggingu tveggja heilsugæslustöðva á Akureyri.
Skipulagsráð samþykkir að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að setja í gang vinnu við breytingu á aðal- og deiliskipulagi tjaldsvæðisreits og að vinnu við breytingu á deiliskipulagi sem nær til Skarðshlíðar 20 verði flýtt.

14.Fjárhagsáætlun skipulagssviðs 2021

Málsnúmer 2020080994Vakta málsnúmer

Lögð fram til umræðu tillaga að fjárhagsáætlun skipulagssviðs fyrir árið 2021.

15.Afgreiðslur byggingarfulltrúa 2020

Málsnúmer 2019120357Vakta málsnúmer

Lögð fram til kynningar fundargerð 780. fundar, dagsett 27. ágúst 2020, með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 2 liðum og er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar.

Fundi slitið - kl. 11:40.