Skipulagsnefnd

211. fundur 09. september 2015 kl. 08:00 - 10:10 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Tryggvi Már Ingvarsson formaður
  • Helgi Snæbjarnarson
  • Ólína Freysteinsdóttir
  • Stefán Friðrik Stefánsson
  • Vilberg Helgason
  • Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Leifur Þorsteinsson staðgengill skipulagsstjóra
  • Stefanía G Sigmundsdóttir fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson staðgengill skipulagsstjóra
Dagskrá
Stefán Friðrik Stefánsson D-lista mætti í forföllum Sigurjóns Jóhannessonar og Vilberg Helgason V-lista í forföllum Edwards Hákonar Huijbens.

Formaður bar upp ósk um að fá að taka fyrir 14. lið, Umhverfis- og samgöngustefna, sem ekki var í útsendri dagskrá og var það samþykkt.

1.Undirhlíð - Miðholt, Undirhlíð 1 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2014020154Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 20. febrúar 2014 og 17. febrúar 2015 þar sem Ingólfur Freyr Guðmundsson f.h. SS Byggis óskar eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Undirhlíð 1-3. Skipulagsnefnd heimilaði umsækjanda þann 8. júlí 2015 að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við bókun nefndarinnar.

Tillagan er dagsett 21. ágúst 2015 og unnin af Loga Má Einarssyni hjá teiknistofnunni Kollgátu.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

2.Oddeyri - rammahluti aðalskipulags

Málsnúmer 2015080022Vakta málsnúmer

Staðgengill skipulagsstjóra lagði fram tillögu að skipulagslýsingu á rammahluta aðalskipulags Oddeyrar. Rammaskipulag verður unnið í samræmi við stefnumótun skipulagsnefndar varðandi nýtingu og skipulag Oddeyrar neðan Glerárgötu sunnan Glerár sem bókað var í skipulagsnefnd 29. október 2014. Tillagan er unnin af Lilju Filippusdóttur landslagsarkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf., dagsett 24. ágúst 2015.
Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulagslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um hana.

3.Naustahverfi, 1. áfangi - deiliskipulagsbreyting - Stekkjartún 32-34

Málsnúmer 2015090002Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 1. september 2015 þar sem Birgir Ágústsson f.h. Virkni eignarhaldsfélags ehf., kt. 520809-0580, sækir um deiliskipulagsbreytingar vegna húss nr. 32-34 við Stekkjartún. Um er að ræða breytingar m.a. á fjölda íbúða, að ekki þurfi bílakjallara, svalagangar leyfðir og lóðarstækkun. Meðfylgjandi er frumteikning.
Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við skipulagsstjóra. Breytingin verði unnin í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Naustahverfi reitur 28, Krókeyrarnöf 21 - umsókn um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 2015090019Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 1. september 2015 frá Ágústi Hafsteinssyni hjá Formi ehf. þar sem hann f.h. Magnum Opus ehf., kt. 470714-0850, óskar eftir heimild til að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi Naustahverfis reits 28 og Naustagötu, þannig að leyft verði að auka byggingamagn í Krókeyrarnöf 21 í 385 m² eða um 34 m² og gera skyggni yfir bílgeymslu- og aðaldyrahurðum út fyrir byggingarreit. Meðfylgjandi er teikning til útskýringar.
Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

5.Helgamagrastræti 22 - fyrirspurn um stakstæða bílageymslu

Málsnúmer 2015080103Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 24. ágúst 2015 þar sem Agnes Heiða og Árni Gunnar Kristjánsson spyrjast fyrir um hvort leyfi fengist fyrir gerð stakstæðrar bílageymslu á lóð nr. 22 við Helgamagrastræti. Meðfylgjandi eru teikningar eftir Árna Gunnar Kristjánsson.
Skipulagsnefnd heimilar umsækjanda að leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Breytingin verði unnin í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Glerárvirkjun II - framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir

Málsnúmer 2015090001Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 1. september 2015 þar sem Bergur Steingrímsson f.h. Fallorku ehf., kt. 600302-4180, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir styrkingu vegslóða að stíflustæði Glerárvirkjunar II, þ.e. vatnsveituvegar milli Sellækjar og Fríðuskálarlækjar. Einnig er óskað eftir leyfi til að kanna jarðveg í stíflustæði og pípustæði. Meðfylgjandi er tilkynningaskýrsla um framkvæmd til Skipulagsstofnunar og ákvörðun Skipulagsstofnunar dagsett 24. nóvember 2014 að framkvæmdin þurfi ekki í umhverfismat. Einnig skýrsla frá Fornleifastofnun Íslands frá 2014 þar sem fram kemur að fyrirhuguð pípulega raskar ekki fornminjum sem kunnugt er um.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi gögn vegna framkvæmda við styrkingu aðkomuvega og könnunar jarðvegs sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 4. gr.- g "Samþykktar um skipulagsnefnd".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

7.Vatnsveita frá Hesjuvallalindum - framkvæmdaleyfi

Málsnúmer 2015080135Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 28. ágúst 2015 þar sem Stefán Steindórsson f.h. Norðurorku hf., kt. 550978-0169, sækir um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu stofnlagnar vatnsveitu frá "miðgeymi" Hesjuvallalinda niður fyrir Hlíðarfjallsveg.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi gögn vegna framkvæmda við vatnslögn, sem er í samræmi við samþykkt aðal- og deiliskipulag og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 4. gr.- g "Samþykktar um skipulagsnefnd".

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

8.Drottningarbraut - framkvæmdaleyfi fyrir útrásarlögn

Málsnúmer 2015090021Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. september 2015 frá Kristni Magnússyni hjá Eflu f.h. Norðurorku þar sem hann sækir um framkvæmdaleyfi fyrir lengingu og færslu ofanvatnsútrásar samkvæmt meðfylgjandi teikningu. Núverandi lögn opnast út í athafnasvæði Siglingaklúbbsins Nökkva við Drottningarbraut.

Lögnin mun liggja um nýja fyllingu á athafnasvæði siglingaklúbbsins.
Skipulagsnefnd hefur yfirfarið meðfylgjandi hönnunargögn vegna framkvæmda við útrásarlögn og samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfisins á grundvelli 4. gr.- g "Samþykktar um skipulagsnefnd" enda liggi samþykkt Siglingaklúbbs Nökkva fyrir.

Eftirfarandi skilyrði setur skipulagsnefnd fyrir veitingu framkvæmdaleyfisins:

Framkvæmdir skulu vera í samræmi við 24. gr. Lögreglusamþykktar fyrir Akureyrarbæ en þar eru ákvæði um farmflutninga og hreinsun ökutækja áður en farið er inn á malbikaðar götur.

9.Landsnet hf. - kynning á kerfisáætlun 2015-2024 og umhverfisskýrsla

Málsnúmer 2014050056Vakta málsnúmer

Landsnet kynnir nú tillögu að kerfisáætlun 2015-2024 í samræmi við raforkulög nr. 65/2003 m.s.br. og umhverfisskýrslu í samræmi við lög nr. 105/2006, en í umhverfisskýrslu er lagt mat á umhverfisáhrif kerfisáætlunar.

Hægt er að nálgast skýrslur og gögn á heimasíðu Landsnets.

Forsvarsmenn Landsnets hafa lýst því yfir að flutningsgeta rafmagns inn á Akureyri og nágrenni sé ekki nægileg. Hún geti verið takmarkandi fyrir núverandi notkun hvað þá aukna raforkunotkun. Við eina bilun verða vandræði. Það þýðir að Akureyrarbær er í þeirri stöðu að þurfa að vísa áhugasömum iðnfyrirtækum annað ef starfsemi þeirra krefst töluverðrar raforku. Hér er verið að tala um meðalstór fyrirtæki, ekki stóriðju. Þessi staða bæjarins og nágrennis er óþolandi en önnur sveitarfélög á Íslandi af svipaðri stærð eru ekki í þessari stöðu. Það ætti að vera efst á forgangslista Landsnets að laga þetta ástand.

Skipulagsnefnd gerir ekki frekari athugasemdir við kerfisáætlun Landsnets að svo stöddu en leggur áherslu á stöðu Akureyrarbæjar í samræmi við gr.1.3. í þingsályktun stjórnvalda nr.11/144 frá árinu 2015.



Jón Þorvaldur Heiðarsson áheyrnarfulltrúi Æ-lista óskar bókað:

Tvö stór raforkuframleiðslusvæði eru á Íslandi. Þjórsársvæðið auk jarðgufuvirkjana á Reykjanesi og Suðurlandi. Hitt er í stórum dráttum Fljótsdalsstöð. Nýtt stórt raforkuframleiðslusvæði mun verða til í Þingeyjarsýslum, í útjaðri Akureyrarsvæðisins, með núverandi Kröflu og uppbyggingu Þeistareykja og Bjarnarflags. Í drögum að kerfisáætlun áformar Landsnet að Krafla og Fljótsdalsstöð verði tengdar með nýrri 220kV línu árið 2016. Þá má segja að virkjanir í Þingeyjarsýslu auk Fljótsdalsstöðvar myndi eitt raforkuframleiðslusvæði. Eðlilegasta skrefið í aukinni flutningsgetu og orkuöryggi til Akureyrar hlýtur að vera ný 220kV lína milli Akureyrar og þessa svæðis (þ.e. til Kröflu) og það strax árið 2016. Þessi lína er hins vegar ekki á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets árin 2016-2018. Þess í stað er gert ráð fyrir nýrri 220kV línu milli Blöndu og Akureyrar 2018. Hún er lengri en milli Akureyrar og Kröflu. Þessi lína hefur mætt mikilli andstöðu í Skagafirði og er viðbúið að málið allt lendi í lögfræðiflækjum og tefjist.


Miðað við núverandi drög að kerfisáætlun Landsnets er því líklegt að flutningsgeta til Akureyrar verði áfram of lítil í að lágmarki 3 ár og líklega í 4 ár eða lengur. Það er óásættanlegt.


Mikið er fjallað um sæstreng í drögum að kerfisáætlun Landsnets. Þar er forsenda að fullt afhendingaröryggi verði á sæstrenginn með tvöföldu kerfi. Gera verður athugasemd við þessa forsendu. Landsvirkjun hefur alla tíð talað um sæstreng á þeim nótum að hann yrði rekinn með sambærilegum hætti og sæstrengir frá Noregi til Hollands og Bretlands. Það er, að með sæstreng verði hægt að spila á markaðinn, selja þegar verð er hátt og kaupa jafnvel þegar verð er lágt og geyma orkuna í uppistöðulónum. Auk þess hefur LV talað á þeim nótum að með sæstreng verði hægt að selja allt umframrafmagn þegar vatnsbúskapur er góður en selja lítið eða ekkert nettó í slæmum vatnsárum. Sæstrengurinn er því tæki til að selja rafmagn sem ekki hefur fullt afhendingaröryggi. Þetta þýðir að ef bilun yrði í línu eða búnaði að strengnum og ekki væri hægt að selja rafmagn til útlanda þann daginn þá þýddi það einungis að það yrði selt síðar. Bilun hefði lítil áhrif á viðskiptamódelið. Þess vegna er það mat undirritaðs að fráleitt sé að gera ráð fyrir því í kerfisáætlun að leggja tvöfalt kerfi til sæstrengs sem kostar tugi milljarða umfram einfalt kerfi sem er nægjanlegt. M.ö.o. er hér rökstutt að forsenda Landsnets sé röng.


Í drögum að kerfisáætlun er því gefið undir fótinn að sæstrengurinn verði hafður lengri en hann þyrfti að vera og yrði tekinn á land á Suðurlandi. Í þessu sambandi er beitt þeim rökum að meginhluti nýrra virkjanakosta sem liggi til grundvallar séu á Suður- og Suðvesturlandi. Þetta er rangt. Nýir virkjunarkostir sem koma fram í rammaáætlun II sem Landsnet leggur til grundvallar eru í meira mæli í Þingeyjarsýslum 535 MW en á Suðurlandi 460 MW. Þetta er reyndar tekið fram í drögunum að kerfisáætlun á öðrum stað (bls. 15). Inni í suðurlandstölunni er Hverahlíðarvirkjun sem ekki verður virkjuð heldur nýtt fyrir Hellisheiðarvirkjun. Jafnvel þó Hvammsvirkjun væri bætt við er meginhlutinn í Þingeyjarsýsum. Rökin hníga því í þá átt að taka sæstrenginn á land á Austurlandi þar sem meginhluti nýrra virkjunarkosta sé á austanverðu Norðurlandi.

10.Grímsey - kennileiti fyrir heimskautsbauginn

Málsnúmer 2015090024Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 2. september 2015 frá Maríu Helenu Tryggvadóttur þar sem hún f.h. Akureyrarstofu sækir um leyfi til að setja upp kennileiti fyrir heimskautabauginn í Grímsey.

Um er að ræða kúlu sem mun verða færð til einu sinni á ári miðað við færslu heimskautsbaugsins. Hönnuðir kúlunnar eru Kristinn E. Hrafnsson og Steve Christer hjá Studeo Granda.
Skipulagsnefnd samþykkir erindið með fyrirvara um jákvæða umsögn hverfisráðs Grímseyjar.

11.Innbær - útilistaverk eftir Elísabetu Geirmundsdóttur

Málsnúmer 2015080116Vakta málsnúmer

Erindi móttekið 24. ágúst 2015 frá Elísabetu Ásgrímsdóttur f.h. áhugasamra einstaklinga um eftirgerð af listaverki eftir Elísabetu Geirmundsdóttur, 'listakonuna í Fjörunni'. Hugmynd kom upp fyrr á árinu í tengslum við yfirlitssýningu í Listasafninu á Akureyri um að setja upp eftirgerð af listaverki Elísabetar á Akureyri og óska staðsetning er á grasflötinni við Leirutjörn, framan við Minjasafnið við Aðalstræti. Tilefnið er 100 ára afmæli listakonunnar. Sjá nánar í bréfi og meðfylgjandi myndum.
Skipulagsnefnd tekur jákvætt í erindið.

12.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 21. ágúst 2015. Lögð var fram fundargerð 553. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum.
Lagt fram til kynningar.

13.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2015

Málsnúmer 2015010005Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 28. ágúst 2015. Lögð var fram fundargerð 554. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 10 liðum.
Lagt fram til kynningar.

14.Samgöngustefna

Málsnúmer 2015010196Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 15. maí 2015 þar sem Jón Birgir Gunnlaugsson f.h. Akureyrarbæjar óskar eftir því að skipulagsnefnd tilnefni tvo fulltrúa í starfshóp um umhverfis- og samgöngustefnu fyrir Akureyrarbæ.
Skipulagsnefnd tilnefnir Helga Snæbjarnarson L-lista og Vilberg Helgason V-lista í nefndina.

Fundi slitið - kl. 10:10.