Skipulagsnefnd

161. fundur 17. júlí 2013 kl. 08:00 - 12:00 Bæjarstjórnarsalur á 4. hæð í Ráðhúsi
Nefndarmenn
  • Helgi Snæbjarnarson formaður
  • Árni Páll Jóhannsson
  • Eva Reykjalín Elvarsdóttir
  • Edward Hákon Huijbens
  • Sigurður Guðmundsson
  • Svava Þórhildur Hjaltalín áheyrnarfulltrúi
  • Tryggvi Már Ingvarsson áheyrnarfulltrúi
  • Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri
  • Leifur Þorsteinsson fundarritari
Fundargerð ritaði: Leifur Þorsteinsson verkefnastjóri
Dagskrá

1.Aðalskipulagsbreyting í miðbæ, skipulagslýsing

Málsnúmer 2013060045Vakta málsnúmer

Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að skipulags- og matslýsingu dagsetta 17. júlí 2013, unna af Ómari Ívarssyni frá Landslagi ehf. og Kollgátu ehf. vegna breytingar á Aðalskipulagi Akureyrar 2005 - 2018 sem gera þarf vegna nýs deiliskipulags í miðbænum.
Haldinn var opinn kynningarfundur fyrir íbúa um lýsinguna þ. 26. júní 2013.

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að skipulags- og matslýsingin verði kynnt almenningi og leitað verði umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila um hana.

2.Aðalskipulagsbreyting vegna akstursíþrótta- og skotsvæðis

Málsnúmer 2013040061Vakta málsnúmer

Tekið fyrir að nýju þar sem bæjarstjórn bókaði á fundi sínum 25. júní 2013 að skipulagsnefnd skyldi taka formlega fyrir athugasemdir Skipulagsstofnunar um lýsingu sem fram koma í bréfi dagsettu 12. júní 2013.
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005 - 2018 dagsetta 17. júlí 2013, unna af Árna Ólafssyni arkitekt hjá Teiknistofu Arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum ehf., vegna stækkunar akstursíþrótta- og skotsvæðis á Glerárdal og annarra breytinga á svæði 1.61.3-O.
Umsagnir vegna skipulagslýsingarinnar bárust frá:
1) Skipulagsstofnun, dagsett 12. júní 2013.
a) Bent er á að aðalskipulagsbreytingin fellur undir lög um umhverfismat áætlana og skal því í umhverfisskýrslu gera grein fyrir áhrifum hennar á þá umhverfisþætti sem við á.
b) Stofnunin telur að í umhverfisskýrslu þurfi að meta hugsanleg áhrif breytingarinnar á neysluvatn og mannvirki þeim tengd.
c) Meta þarf áhrif stækkunar, aukinnar starfsemi og hávaða frá akstursíþrótta- og skotsvæðinu á nýja landnotkun norðan Hlíðarfjallsvegar.
2) Norðurorku, dagsett 13. júní 2013.
Hugsanleg breyting á legu lagna skal kostuð af lóðarhafa. Við aðalskipulag og deiliskipulag þarf að hafa samráð um útfærslu á lagnaleiðum.
3) Vegagerðinni, sem gerir ekki athugasemd við skipulagslýsinguna.

Svar við athugasemdum vegna lýsingar:

1 a) Tekið hefur verið tillit til athugasemdarinnar og viðbætur gerðar í greinargerð.

b) Tillagan er unnin í nánu samstarfi við Norðurorku og eru ekki lagðar til neinar breytingar á lögnum vatnsveitu sem eru neðanjarðar og liggja um svæðið. Hinsvegar er gert ráð fyrir sérstakri lóð fyrir lokahús, vatnstank og athafnasvæði vegna vatnsveitu með séraðkomu frá Hlíðarfjallsvegi og hún er því ekki tengd öðrum svæðum með beinum hætti.

c) Áhrif stækkunar, umfangs starfsemi og hávaða frá akstursíþrótta- og skotsvæði á nýja landnotkun í Hálöndum verður metið og skoðað sérstaklega við vinnslu deiliskipulagstillögu.

2) Samráð mun verða haft við Norðurorku um útfærslu á lagnaleiðum ef til breytinga kemur.

 

Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að breytingartillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

3.Klettagerði 4 - fyrirspurn um viðbyggingu

Málsnúmer 2013060092Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 6. júní 2013, þar sem Logi Már Einarsson f.h. Andra Teitssonar sendi inn fyrirspurn vegna stækkunar að Klettagerði 4, var sent í grenndarkynningu 13. júní 2013 og lauk henni 11. júlí 2013.
Ein athugasemd barst frá Erni Inga Gíslasyni Klettagerði 6.
Athugasemdir eru gerðar sem tengjast umfangi, stærð viðbyggingar, skuggavarpi og ferli málsins.

Skipulagsnefnd óskar eftir upplýsingum varðandi skuggavarp af fyrirhugaðri viðbyggingu vegna nálægðar við Klettagerði 6, miðað við núverandi aðstæður á þeirri lóð.

Afgreiðslu erindisins er frestað.

4.Hvannavellir 12 - viðbygging

Málsnúmer 2013050118Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 16. maí 2013, þar sem Þröstur Sigurðsson frá Opus ehf. f.h. Íslensk Ameríska ehf, kt. 660169-1729, sækir um leyfi til stækkunar húsnæðisins við Hvannavelli 12, var sent í grenndarkynningu þann 31. maí 2013 og lauk henni þann 28. júní 2013.
Fimm athugasemdir bárust:
1) Unnar Jónsson og Lilja S. Jóhannesdóttir, Sólvöllum 11, dagsett 10. júní 2013.
Þau telja viðbygginguna of fyrirferðarmikla þar sem hún mun nánast ná að lóðarmörkum. Einnig telja þau að kælibúnaði, sem umrædd viðbygging eigi að hýsa, fylgi mikill hávaði. Íbúar hvetja skipulagsnefnd til þess að hafna tillögunni.
2) Jón Sigtryggsson og Heiðbjört Friðriksdóttir, Sólvöllum 13, dagsett 13. júní 2013.
Þau telja að ekki verði hægt að fallast á fyrirhugaða viðbyggingu nema að gerð sé nákvæm grein fyrir því hvernig búnaður verði frágenginn vegna hljóðmengunar. Íbúar vilja því fá fullnægjandi upplýsingar svo hægt sé að taka afstöðu til viðkomandi byggingar.
3) Sigurhörður Frímannsson, Sólvöllum 17, dagsett 18. júní 2013.
Hann vill koma á framfæri mótmælum vegna fyrirhugaðra breytinga við Hvannavelli 12 og telur að þær muni valda hávaðamengun.
4) Pétur Torfason, Sólvöllum 9 og Sigríður Whitt, Sólvöllum 17, dagsett 25. júní 2013.
Gerð er athugasemd við frystigeymslu, m.a. um staðsetningu búnaðars og hversu mikill hluti hans verði utan eða ofan á viðbyggingunni. Íbúar gera kröfu til skipulagsnefndar um að gengið verði úr skugga um hvernig hljóðvistarmálum verði háttað.
5) Bjarni Á. Héðinsson og Íris B. Árnadóttir, Sólvöllum 15, dagsett 10. júní 2013.
Samhljóða athugasemd nr. 1.

Skipulagsnefnd frestar erindinu og óskar eftir nánari upplýsingum frá hönnuði um hvernig hljóðvistarmálum kælikerfis og loftræsingar viðbyggingarinnar verði háttað.

5.Hafnarstræti 82 - umsókn um lóðarstækkun

Málsnúmer 2013070028Vakta málsnúmer

Erindi dagsett 8. júlí 2013 þar sem Gunnar Magnússon sækir um lóðarstækkun við hús nr. 82 við Hafnarstræti. Einnig er lóðarminnkun til suðurs mótmælt.

Ekki er hægt að verða við beiðni um lóðarstækkun að svo stöddu þar sem breytingar á gatnakerfi eru ekki á framkvæmdaáætlun þessa árs.

Afgreiðslu erindisins er frestað. 

6.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2013

Málsnúmer 2013010008Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 26. júní 2013. Lögð var fram fundargerð 449. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 11 liðum.

Lagt fram til kynningar.

7.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2013

Málsnúmer 2013010008Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 3. júlí 2013. Lögð var fram fundargerð 450. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 5 liðum.

Lagt fram til kynningar.

8.Afgreiðslur skipulagsstjóra 2013

Málsnúmer 2013010008Vakta málsnúmer

Fundargerð dagsett 11. júlí 2013. Lögð var fram fundargerð 451. fundar með fullnaðarafgreiðslum erinda. Fundargerðin er í 8 liðum.

Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 12:00.